Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Hæfileikamót

Hæfileikamót KSÍ og N1 hjá stúlkum fór fram á Akranesi 14. og 15. október síðastliðinn. Mótið fór fram undir stjórn Dean Martin en hann hefur undanfarið ferðast um landið með Hæfileikamótun KSÍ og var þetta mót framhald af þeirri vinnu. Þarna var um að ræða stúlkur á aldrinum 13 til 14 ára og höfðu þær áður fengið fróðleik og mætt á æfingar. Allar stúlkurnar frá Snæfellsnessamstarfinu sem boðaðar höfðu verið á æfingar og fræðslu komust áfram á mótið og eftir þetta mót verður svo skorið aftur niður fyrir undirbúning fyrir U16 landsliðið. Það voru þær Aníta Ólafsdóttir, Minela Crnac, Sara Eysteinsdóttir og Sædís Rún Heiðarsdóttir sem tóku þátt Stóðu þær sig allar mjög vel og höfðu mikið gaman af. Breki Hermansson var sá eini af drengjunum sem var boðaður aftur á mót en hann komst ekki í gegnum næsta niðurskurð að þessu sinni. Engu að síður frábær árangur hjá Breka og eigum við örugglega eftir að sjá meira til hans í framtíðinni. Hvort stúlkurnar komust í gegnum niðurskurðinn kemur í ljós á næstu dögum. Til hamingju krakkar. Það þarf greinilega ekki að hafa áhyggjur af framtíðinni í knattspyrnu á Snæfellsnesi enda mikið af hæfileikaríku ungu fólki sem við eigum.

þa/Bæjarblaðið Jökull