Hjúkrunarheimili 2021

Á fundi bæjarstjórnar Stykkishólms s.l. þriðjudag var bæjarstjóra veitt heimild til þess að undirrita samning við Velferðarráðuneytið um samstarf ráðuneytis og Stykkishólmsbæjar um breytingar og uppbyggingu hluta húsnæðis sjúkrahússins svo hefja megi rekstur hjúkrunarheimilis í St.Fransickusspítalanum.

Samningurinn verður undirritaður fimmtudaginn 17.maí. Skv. upplýsingum frá bæjarstjóra er samningurinn full fjármagnaður af hálfu ríkisins samkvæmt Ríkisfjármálaáætlun en Ríkiseignir sjá um fjármögnun þeirra breytinga sem ekki eru hluti hjúkrunarheimilisins. Dvalarheimilið mun því verða sameinað St.Fransickusspítalanum. Gert er ráð fyrir því í samþykktum bæjarins að húsnæði Dvalarheimilisins verði breytt í leiguíbúðir og þjónustumiðstöð fyrir öldrunarþjónustu í bænum. Skipaður verður starfshópur á vegum bæjarins og ráðuneytis sem sjá mun um skipulag og framkvæmd málsins. Jafnframt hefur bæjarstjórn ákveðið að setja á fót samráðshóp starfsmanna sjúkrahúss og Dvalarheimilis sem vinni með starfshópnum.

Verkefni þetta hefur verið í vinnslu s.l. 7 ár og sér nú fyrir endann á því með undirritun þessa samnings. 18 hjúkrunarrými verða útbúin á sjúkrahúsinu áætlaður kostnaður án búnaðar er áætlaður 593 milljónir króna. 83% kostnaðar við endurgerð/breytingu húsnæðis greiðast þannig af ríkissjóði en 17% af Stykkishólmsbæ. Kostnaður við kaup á búnaði greiðist í sömu hlutföllum og kostnaður við endurgerð/breytingu húsnæðisins. Starfshópur sem vinna mun að áætlunargerð og fullnaðarhönnun hjúkrunarheimilisins verður skipaður tveimur fulltrúum frá Stykkishólmsbæ og tveimur skipar heilbrigðisráðherra tvo fulltrúa í hópinn. Í samkomulaginu er miðað við að verkleg framkvæmd hefjist árið 2019 og að heimilið verði tekið í notkun árið 2021.

am/frettir@snaefellingar.is