Hljómborð fyrir afrakstur kaffisölu

Vortónleikar tónlistarskóla Snæfellsbæjar fóru fram í síðustu viku. Tónleikarnir voru haldnir í Félagsheimilinu Klifi og var að venju mjög vel mætt af aðstandendum þeirra sem stunda nám í skólanum. Foreldrafélag tónlistarskólans sér um kaffisölu á tónleikum skólans, er þetta alltaf vandað veisluborð og gaman að setjast niður að loknum tónleikum og gæða sér á veitingum. Foreldrafélagið ákvað svo á dögunum að verja hluta af ágóða af kaffisölu jóla­ og vortónleika til hljóðfærakaupa. Að þessu sinni var ákveðið, í samráði við kennara tónlitarskólans, að kaupa hljómborð og stand undir það. Hljómborðið mun nýtast vel þegar nemendur skólans koma fram við tónleikahald víðsvegar um bæinnn. Á mynd­inni eru kennarar og fulltrúar foreldrafélagsins.

Birtist fyrst í Bæjarblaðinu Jökli