Miðvikudagur , 19. desember 2018

Hljómsveitin Drangar í Stykkishólmi

drangar_cover_jpgNú í október og nóvember ætla Drangar að leggja land undir fót og spila á 18 tónleikum um allt land. Á efnisskránni verða lög af nýútkominni plötu þeirra sem ber einnig nafnið Drangar. Hljómsveitina skipa þeir Mugison, Jónas Sig. og Ómar Guðjóns og eru öll lög og textar eftir þá drengi. Á heimasíðu Dranga, www.drangar.is, er hægt að versla geisladiskinn “beint frá býli” og fylgir honum frítt niðurhal af tónlistinni. Auk þess er hægt að kaupa miða í forsölu á tónleika hljómsveitarinnar. Saga Dranga hófst í nóvember á síðasta ári þegar þeir Jónas Sig og Ómar Guðjóns voru á tónleikaferð um landið og komu m.a. fram á tónleikum hér í Stykkishólmi. Þeir fengu Mugison með sér á svið á tónleikum á Vagninum á Flateyri og varð þar til þetta þriggja manna bræðralag. Síðan í febrúar hafa þeir verið við vinnslu á plötunni og hefur megnið af vinnunni farið fram á Súðavík, Borgarfirði Eystri og Álafoss kvosinni. Hljómsveitin mun halda tónleika á Hótel Stykkishólmi fimmtudagskvöldið 7. nóvember kl. 20
am/Ljósmynd:Baldur Kristjánsson