Höfum við það gott eða er allt í rusli?

Á leið í Ögur má sjá fleiri græna gáma frá Íslenska gámafélaginu en oft áður og í samtali við Gunnar Jónsson hjá gámafélaginu þá orsakast það einkum af því að byggingarframkvæmdir standa yfir við Snoppu um þessar mundir og því þurfti að færa til gáma á geymslusvæði félagsins. Húsið sem Skipavík er að byggja við hlið Snoppu er komið á staðinn en ekki risið.

Tilgangurinn með húsbyggingunni er að nýta betur ferðir með sorp til Reykjavíkur og í Fíflholt. Þar sem flokkunin hér í Stykkishólmi og Grundarfirði er með svipuðu sniði og gámafélagið þjónustar bæði sveitarfélögin við sorphirðu var orðið nauðsynlegt að byggja skemmu til að losa úr bílunum á milli sorphirðudaga.
Þannig verður losað í gáma inni í húsinu og þegar þeir fyllast er fyrst farið með þá suður og þá verður hægt að fara með tvo gáma í einu í hverri ferð, hagkvæmnin mun því aukast verulega með húsbyggingunni.

Auk þess verður hægt að flokka þarna að einhverju leiti. Aðspurður um hvernig okkur gangi að flokka heimilissorpið sagði Gunnar að það gengi ágætlega. Hinsvegar hafi verið gert átak í tengslum við notkun grænu tunnunnar þar sem það kom fyrir að sorp var sett í ógagnsæja plastpoka í tunnuna s.l. haust. Athugasemdir vegna þessa komu frá sorpflokkuninni í Reykjavík því þar er flokkað á færibændi úr grænu tunnunni af starfsfólki gámafélagsins. Þannig voru tunnur sem voru með þannig poka ekki losaðar heldur límt á þær miði um að gera þyrfti bragarbót svo hægt væri að senda innihaldið í endurvinnslu. Það bar góðan árangur, sagði Gunnar og þessum tunnum hefur fækkað snarlega. Hinsvegar hefðum við það gott hér í Hólminum, þess ber nytjagámurinn merki. Þar hefur þurft að grisja svo hægt sé að setja í hann. Fólk komi hinsvegar alltaf af og til og kíki í hann og endurnýti muni úr honum.

Gunnar bendir á að hér sé opnunartími gámastöðvar rúmur og meiri en víða annarsstaðar í bæjarfélögum af svipaðri stærð og Stykkishólmur. Stefna bæjarfélagsins sé sú að vera ekki með auka losunardaga en á móti kemur að íbúar geta komið umframsorpi af heimilunum á gámastöðina eða farið með flokkað sorp á grenndarstöðina við grunnskólann. Þegar keyrt er að Snoppu má sjá að söfnunarárátta Hólmara er virk því að utan við gámasvæði hafa safnast munir sem eru síst til prýði.

am