Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Hugmyndasmiðja um Gestastofu

S.l. laugardag var efnt til hugmyndasmiðju um væntanlega Gestastofu fyrir Snæfellsnes.  Um 30 þátttakendur alls staðar að af Snæfellsnesi komu saman á Breiðabliki til að ræða og koma með hugmyndir um efnið.  Hófst vinnan kl. 10:30 og stóð til kl. 13:30. Stjórn fundarins var í höndum Sigurborgar Hannesdóttur og óhætt að segja að vel hafi verið haldið utan um umræðuefni og framvindu fundarins. Meðal annars var velt upp spurningum um skoðanir þátttakenda á upplýsingagjöf, ferðaleiðum og áningarstöðum ferðamanna á Snæfellsnesi og hvort sameinast ætti um gestastofu til að taka á móti gestum og kynna Snæfellsnes.

Óhætt er að fullyrða að umræður hafi verið líflegar og margar hugmyndir kviknað í hópum sem þarna var skipt upp í.  Það var almenn skoðun fundarmanna skv. tillögum þeirra sem birtar voru á fundinum að Gestastofu ætti að staðsetja á Breiðabliki.  Skipta þyrfti verkefninu upp í áfanga til að koma því í framkvæmd.  Húsnæðið á Breiðabliki býður upp á marga möguleika og ljóst að endurbóta er þörf á hluta þess. Meðal hugmynda er að opna svokallaða „kalda“ gestastofu sem er gestastofa utandyra með upplýsingamiðlun t.d. á skiltum og án starfsmanns a.m.k. yfir veftrartímann.  Í fyrsta áfanga verði einnig komið upp þjónustu fyrir ferðamenn með hreinlætisaðstöðu á Breiðabliki og þjónustu fyrir ferðabíla ásamt leiksvæði fyrir börn.  Gestastofu verði komið upp a.m.k. í hluta rýmisins fyrst í stað en þegar fram í sækir að nýta húsið á fjölbreyttan hátt en þar er hægt að bjóða upp á þjónustu af ýmsu tagi. Hugmyndirnar snérust einnig um það að miðla með rafrænum hætti upplýsingum um Snæfellsnes til ferðamanna.

Á meðan á fundinum stóð komu ferðamenn oft inn í húsakynnin til að leita þjónustu, það sýndi sig því að um leið og mannaumferð er við húsið dregur það að sér fleiri, auk þess sem bensínstöð N1 sem áður var staðsett á Vegamótum hefur verið sett upp við Breiðablik og komu bílar þar og fóru allan tímann.

Niðurstaða fundarins var mjög skýr:  Byggja ætti upp gestastofu á Breiðabliki til frambúðar. Taka ætti þannig á móti gestum sem ferðast um Snæfellsnes og beina þeim á þá staði sem eru til þess fallnir að vera viðkomustaðir ferðamanna.