Hundasúrudrykkur hlutskarpastur

Sigurvegarar ásamt skipuleggjendum hátíðarinnar. Fengið af FB-síðu SCW

Stykkishólmur Cocktail Weekend fór fram um liðna helgi. Sex veitingastaðir tóku þátt að þessu sinni og hristu saman glæsilega drykki. Þetta var í annað skipti sem keppnin er haldin og var hún hörð þetta árið. Margir nýttu hráefni úr nærumhverfinu við drykki sína s.s. rabarbara, blóðberg, berjalyng og hundasúrur. Margir bæjarbúar og ferðamenn fóru í leiðangur til að smakka. Ekki skemmdi veðrið fyrir á laugardagskvöldið.

Sigurdrykkurinn þetta árið var Frú Möller hjá Narfeyrarstofu, rommdrykkur með hundasúru-krapís og jarðaberjum.

Sigurvegarinn fékk að launum farandbikar sem gerður var í Leir 7 á lokahófi hátíðarinnar á Fosshóteli.

Af farandbikarnum og viðtökunum að dæma er ekki annað að sjá en að keppnin sé komin til að vera.