Húsnæðismál – Fermeterinn dýrastur í Stykkishólmi

Það dylst engum að mörg eru sóknarfærin í ferðamennskunni. Mikil fjölgun hefur orðið á gistirýmum hverskonar um land allt og er Snæfellsnesið ekki undanskilið. Á sama tíma á fólk í vandræðum með að finna sér húsnæði til leigu eða kaups. T.a.m. hafa sex íbúðir í Grundarfirði verið seldar og gengur illa fyrir íbúa þeirra að finna sér húsnæði í bænum. Sumir sjá jafnvel ekki annað í stöðunni en að flytja úr bænum. Fjöldi ungs fjölskyldufólks hefur aukist talsvert í Stykkishólmi undanfarin ár. Margir hafa snúið til baka eftir nám en aðrir hafa kosið að flytja vegna atvinnutækifæra án þess að eiga þar rætur.

Fasteignamarkaðurinn

Í Stykkishólmi eru 15 íbúðarhúsnæði á söluskrá. Lægsta verð er 15,9 milljónir fyrir 44,7 fermetra, tveggja herbergja parhús. Hæsta verð er 79 milljónir fyrir 186,2 fermetra, fimm herbergja einbýlishús. Á einni eign er óskað eftir tilboði.

Meðalverð eignanna er 34,3 milljónir kr. og meðalverð á fermetra í bænum er 228.000 kr.

Grundarfjörður hefur 19 íbúðarhúsnæði á skrá. Tilboð óskast á 5 þeirra. Lægsta verð er 7,5 milljónir fyrir tveggja herbergja, 70 fermetra íbúð í fjölbýlishúsi. Hæsta verð er 35 milljónir fyrir 232 fermetra einbýlishús með 7 herbergjum. Meðalverð eigna í Grundarfirði er um 20,5 milljónir kr.

Séu þessar eignir teknar fyrir sést að meðalverð á fermetra í Grundarfirði er um 142.000 kr.

Í Snæfellsbæ eru 76 húsnæði til sölu, þar af er óskað eftir tilboði á 20 þeirra. Verðin á eignunum er frá 4,5 milljónum fyrir 97 fermetra einbýlishús með tveimur herbergjum upp í 38,5 milljónir fyrir 250 fermetra, 6 herbergja einbýlishús. Meðalverð eignanna er 16,5 milljónir kr. Fermetraverð er 123.000 kr. að meðaltali.

Atvinnuhúsnæði, óflokkuð húsnæði, jarðir/lóðir og tilboð eru ekki talin með í útreikningunum. Reiknað er eftir uppsettum verðum á óseldum eignum.

Það er því ljóst eftir lögmálum markaðarins að eftirsókn minnkar eftir því sem lengra er farið út á Snæfellsnes. Það hljómar e.t.v. vel fyrir ýmsa en fyrir fólk í íbúðaleit í Stykkishólmi er markaðurinn alltof erfiður.

Það gæti þó breyst á næstunni í ljósi þess að verið er að fara í framkvæmdir á fjölbýlishúsum sem gætu farið á sölu eða til leigu.

Gistimarkaðurinn

Sum húsanna á söluskrá má einnig finna til útleigu á síðu Airbnb. Hér má sjá dæmi um verð á Airbnb gistimöguleikum á Snæfellsnesi. Tölurnar geta gefið skakka mynd þar sem ekki er endilega borið saman hvort um er að ræða hús sem margir geta skipta með sér greiðslunni eða herbergi með stöku rúmi. Meðalverðin í bæjarfélögunum eru fengin af vefsíðu Airbnb.

Skráðar Airbnb gistingar í Stykkishólmi eru 38 talsins. Lægsta verðið er 7.500 kr. fyrir herbergi með 2 rúmum. Dýrasti gistimöguleikinn er heimili sem rúmar 11 manns á rúmar 47.000 kr. Meðalverð gistingar í Stykkishólmi er í kringum 20.000 kr. fyrir nóttina en þar er einungis tekið tillit til verð fyrir nótt, hvort sem það er tveggja rúma herbergi eða hús með fleiri herbergjum. Því geta fleiri komið sér saman um að deila greiðslunni á stærri húsum sem einungis eru leigð út í einu lagi.

Í Grundarfirði eru skráðar 30 gistingar. Ódýrasta gistingin er á rúmar 8.000 kr. nóttin, það er herbergi með einu rúmi. Dýrasta gistingin er á tæpar 34.000 kr. fyrir hús með 6 rúmum. Meðalverðið á einni nótt í Grundarfirði er ca. 16.500 kr.

Í Snæfellsbæ eru 46 gistingar samkvæmt Airbnb, sú ódýrasta á 5.000 kr. fyrir hús með 4 rúmum. Verðið er miðað við pr. gest. Dýrasta gistingin er hús með 6 rúmum á 55.000 kr. á Hellnum. Meðalverð er 18.000 kr.

Sé einungis horft til byggðakjarna Snæfellsbæjar norðan jökuls er ódýrasta gistingin á 5.000 kr. en sú dýrasta 35.000 kr. fyrir hús með 10 rúmum. Meðalverð þar er 15.000 kr.

Sama lögmál virðist því gilda um þessar gistingar og verð á fasteignum í bæjarfélögunum. Tekið skal fram að Airbnb er vissulega ekki eina leiðin til þess að auglýsa heimagistingar og önnur gistipláss

Rekstrarleyfi

Á vef Sýslumannsembættis má finna lista yfir rekstrarleyfishafa fyrir veitinga- og gististaði. Leyfunum er skipt niður í flokka og er flokkur I sá sem nær yfir heimagistingar. Á síðunni er heimagistingunni lýst svo „Einstaklingum (ekki lögðaðilum) er heimilt að skrá heimagistingu gegn endurgjaldi á fasteign þar sem þeir eru með skráð lögheimili eða í einni annarri fasteign sem þeir hafa til persónulegra nota og er í þeirra eigu (þinglýst eign).”

Í Stykkishólmi, Grundarfjarðarbæ og Snæfellsbæ má finna fimm heimagistingar á hverjum stað samkvæmt útgefnum rekstrarleyfum í flokki I.

Í flokki II eru gefin leyfi fyrir gististaða án veitinga. Í Stykkishólmi eru 15 slík rekstrarleyfi. Þau eru 16 talsins í Grundarfirði og 21 í Snæfellsbæ.

Hér er þó ekki þar með sagt að misræmið á Airbnb og útgefnum leyfum gefi mynd af því hve margir auglýsi eign sína án leyfis. Margar skráningar á Airbnb geta nefnilega verið undir einu leyfi þar sem t.d. herbergi eru auglýst sér í húsi sem alfarið er nýtt undir gistingu.