Miðvikudagur , 23. janúar 2019

Hvað er að frétta?

Margt um að vera um helgina á Snæfellsnesi og þá skiptir veðrið ekki máli, það er alltaf eitthvað veður! Skotthúfan, þjóðbúningadagur verður haldinn í Norska húsinu á laugardaginn hér í Stykkishólmi, með fyrirlestri í Eldfjallasafni, kaffi í Norska húsinu og tónleikum í gömlu kirkjunni. Yfirstandandi sýning er opin í Norska húsinu, Eldfjallasafni, Vatnasafni, Æðarsetri Íslands og Listasal Stykkishólmskirkju. Gott ef ekki opnar nýtt kaffihús hjá Leir 7 um helgina!  Opnunarhátíð verður í Malarrifsvita en þar opnar sýning Jónínu Guðnadóttur en frá Gestastofu þjóðgarðsins á Malarrifi eru nú daglegar göngur um svæðið sem hefjast þar kl. 13.  Léttleikar verða á Lýsuhóli á laugardag kl. 14-16 sem hluti af íþróttadögum HSH. Sveitamarkaður verður að Breiðabliki laugardag og sunnudag. Gaman er að skoða útilistaverk á Rifi sem listamenn tengdir Frystiklefanum hafa gert auk þess sem lifandi tónlist er þar á laugardögum og kvikmyndin Hrútar sýnd þar alla sunnudaga.  Pakkúsið er opið í Ólafsvík og hið glæsilega sjóminjasafn á Hellissandi sem nýlega tók í gagnið nýbyggingu við safnið. Í Krossavík er Hvítahús og þar eru áhugaverðir hlutir í gangi, myndlistarsýningar og námskeið. Samkomuhúsið á Arnarstapa,  Hákarlasafnið í Bjarnarhöfn og Sögumiðstöðin í Grundarfirði eru auðvitað á sínum stað líka. Nýir kaffi- og veitingamöguleikar hafa margfaldast um allt Snæfellsnes og tilvalið að kynna sér þá. Svo er auðvitað hægt að bregða sér í sund um allt Nes.

am/frettir@snaefellingar.is