Hvernig tónlist á orgel?

Í júlí fóru fram þrennir tónleikar í Stykkishólmskirkju á vegum Listvinafélags kirkjunnar. Efnisval var mjög fjölbreytt og tónlist frá ýmsum tímum. Á einum tónleikunum var barrokktónlist leikin á Klais orgelið. Nú í ágúst verða einnig þrennir tónleikar í kirkjunni og þar af tvennir þar sem orgelið kemur við sögu. Allt spennandi og ólíkir tónleikar með tónlist úr öllum áttum.
Miðvikudaginn 9. ágúst kl. 20 koma þeir Eyþór Ingi Jónsson og Þórir Jóhannsson fram á tónleikum undir heitinu Bassarnir spila saman. Eyþór Ingi er organisti í Akureyrarkirkju og mikill frumkvöðull í tónlistarlífi Akureyrar. Þórir er fastráðinn bassaleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Efnisskráin fyrir þessa tónleika var valin með það að leiðarljósi að bassarnir spiluðu saman. Efnisskráin spannar tímabil allt frá barokktímanum til okkar daga og er hvort tveggja í senn, aðgengileg og spennandi og leyfir hljóðfærunum að njóta sín saman eða eitt og sér. Samstarf þeirra félaga Þóris og Eyþórs nær allt aftur til ársins 2009. Þegar fram liðu stundir þótti þeim nánara samstarf liggja beinast við og settu saman efnisskrá fyrir þessa óhefðbundnu samsetningu kontrabassa og orgels. Þetta eru afar ólík hljóðfæri, en eiga þó botninn sameiginlegan. Þórir og Eyþór eru því á sitt hvorn háttinn bassa-leikarar.
Myndlistarsýning Haraldar Jónssonar í Stykkishólmskirkju stendur yfir til og með 19. ágúst og er opin daglega frá kl. 17-19 og er ókeypis aðgangur.
Allar upplýsingar um viðburði Listvinafélagsins er að finna á Facebook síðu félagsins.