Íbúar í Eyja- og Miklaholtshreppi vilja skoða kosti sameiningar

Verið er að kanna jarðveginn fyrir sameiningu Stykkishólms, Helgafellssveitar og Grundarfjarðarbæjar.

Eyja- og Miklaholtshreppur valdi að taka ekki þátt í þeim viðræðum sökum þess að Snæfellsbær kaus að vera ekki með, það er þeirra skoðun að öll sveitarfélög á Snæfellsnesi ættu að sameinast í eitt.

Samt sem áður stendur þeim til boða að hoppa á vagninn hvenær sem er í ferlinu snúist þeim hugur, eins og kemur fram í fundargerð bæjarráðs Grundarfjarðarbæjar frá 28. apríl sl., þar stendur: „Eyja- og Miklaholtshreppi hefur frá upphafi staðið til boða að vera með í þessari vinnu. Sú afstaða hefur ekkert breyst, komi fram ósk um slíkt.”

Nú hefur hópur áhugafólks um sameiningu/samstarf fyrir sunnan fjall skrifað undir undirskriftalista þess efnis að skora á hreppsnefndina að fara í greiningarvinnu fyrir kostum sameiningar. Á vef Skessuhorns kemur fram að aðilarnir að baki undirskriftasöfnunarinnar séu Valgarð S. Halldórsson í Gröf og Gísli Guðmundsson í Hömluholti. Alls skrifuðu 47 manns undir listann. 84 kosningabærir einstaklingar búa í sveitarfélaginu. Erindið var tekið fyrir á fundi hreppsnefndar 4. maí sl.

Á þeim fundi var einnig lagður fram undirskriftarlisti frá 18 íbúum um að „boða til borgarafundar um stöðu sveitarfélagsins í ýmsum málum og verkflokkum með tilliti til sameiningarviðræðna við önnur sveitarfélög” eins og það er orðað í fundargerð.

Lagt var til af Eggerti Kjartanssyni, oddvita, að borgarafundur færi fram sem fyrst þar sem m.a. verður rætt um sameiningu. Einnig var lagt til að erindi áhugafólks um sameiningu yrði frestað fram yfir borgarafund.

Tveir hreppsnefndarmenn, það Halldór Jónsson og Harpa Jónsdóttir, komu með bókun þar sem þau harma það að ekki sé tekið tillit til vilja íbúanna sem vilja að sveitarstjórn taki þátt í greiningarvinnunni við sameiningu Stykkishólmsbæjar, Helgafellssveitar og Grundarfjarðarbæjar. Í bókuninni telja þau greiningarvinnuna geta varpað skýrara ljósi á kosti og galla sameiningar fyrir sveitarfélagið. „Íbúar sveitarfélagsins hefðu alltaf haft síðasta orðið um þá framvindu,” segir janframt í bókuninni.

Oddviti lagði fram eftirfarandi bókun. „Að mati oddvita er mikilvægt að gefa öllum íbúum kost á að koma skoðunum sínum á framfæri á jafn viðkvæmu máli og sameiningarmál sveitarfélaga eru. Besta og lýðræðislegasta leiðin til þess er að gefa öllum færi á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum á borgarafundi.”

Næstu skref

Samstarfsnefnd um sameininguna hefur fundað með fulltrúum KPMG. Næstu skref eru þau að KPMG sendi nefndarmönnum samningsdrög ásamt tímaáætlun verkþátta. Stefnt er að því að íbúakosningar verði ekki síðar en í lok nóvember á þessu ári.

Fyrirvari er settur á íbúakosninguna og er hann sá að niðurstöður greiningarvinnunnar sýni fram á hagsbætur með sameiningunni. Þá verða sveitarstjórnir að vera sammála um að efna til íbúakosninga.