Íþróttadagar á Snæfellsnesi

Íþróttafélögin á Snæfellsnesi í samstarfi við HSH og Svæðisgarðinn Snæfellsnes hafa undanfarið staðið fyrir kynningum á hinum ýmsu íþróttum. UMF Snæfell reið á vaðið og kynnti körfubolta 13. apríl í Stykkishólmi. UMFG var með opnar æfingar í blaki 25. og 26. apríl. Hestamannafélagið Snæfellingur stóð fyrir hestaíþróttamóti í Grundarfirði 1. maí og stendur fyrir gæðingakeppni þann 16. júní í Stykkishólmi.

Umf Víkingur/Reynir stóð svo fyrir knattspyrnudegi þann 10. maí síðastliðinn í íþróttahúsi Snæfellsbæjar. Þennan dag var búið að setja upp hoppukastalaþrautabraut, fótboltapílukast og lítinn fótboltavöll. Gerðu þessar þrautir mikla lukku og ekki skemmdi fyrir að leikmenn meistarflokks karla í knattspyrnu hjá Víkingi Ó sáu um að aðstoða krakkana. Mjög vel var mætt á þessa kynningu sem og hinar sem hafðar hafa verið en krökkum alls staðar af Snæfellsnesi var boðið að mæta.

Fleiri kynningar eru fyrirhugaðar og verða þær þann 30. júní hjá Ungmennafélagi Staðarsveitar þar sem frjálsar íþróttir verða kynntar en haldnir verða íþróttaleikar með léttum brag þar sem meðal annars verða keppnisgreinar sem keppt er í á Unglingalandsmótum. 22. júní mun Skotveiðifélag Snæfellsnes verða með kynningu fyrir 15 ára og eldri og síðast en ekki síst verða golfklúbbarnir á svæðinu með uppákomur í sumar sem verða betur auglýstar síðar. Þetta frábæra framtak hefur heppnast vel og skilar sér vonandi í fleiri skráningum barna í íþróttir en öll hreyfing er af hinu góða. Vonandi verður áframhald á þessum kynningum.

þa