Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

KÍTÓN og LHÍ í Tónó

Hópurinn á Hvammstanga í fyrra. /Facebooksíða Kítón

Á haustdögum verður mikið um að vera í Tónlistarskóla Stykkishólms. KÍTÓN, sem stendur fyrir Konur í tónlist og er félag kvenna í tónlist á Íslandi, hefur óskað eftir samstarfi við skólann og stefnir á að koma hingað vikuna 3.-9. september. Hafa þær óskað eftir þátttöku frá kvenkyns nemendum skólans sem leggja stund á tónsmíðar.

Félagið fór í samskonar ferð til Hvammstanga á síðasta ári og dvöldu þar nokkrar tónlistarkonur. Þar unnu þær að tónsmíðum þvert á stefnur, héldu tónleika og var ferðin kvikmynduð. Hópurinn var blandaður af reynsluboltum auk kvenna sem voru að stíga sín fyrstu skref opinberlega í tónlistarflutningi.

Tilgangur félagsins er að skapa jákvæða umræðu, samstöðu og samstarfsvettvang meðal kvenna í tónlist.

Þar er ekki öll sagan sögð því Listaháskóli Íslands stefnir á að koma aftur með fyrsta árs nema í tónlist í vinnuviku dagana 25.-29. september. Hópur frá skólanum kom hingað síðasta haust og þótti takast vel til. Nemendur og skipuleggjendur vinnuvikunnar voru himinlifandi með viðtökurnar og dvölina í heild. Þá var strax ákveðið að hafa þetta reglulega ferð.