Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Konuhittingur

Rauðikrossinn í Ólafsvík, Svæðisgarðurinn Snæfellsnes ásamt fleiri félögum hafa í vetur verið í samstarfsverkefni. Markmiðið með þessu verkefni er að konur af mismunandi þjóðerni hittist, tali saman og kynnist. Í þetta skiptið var ferðinni heitið í Gestastofu þjóðgarðsins á Malarrifi. Þar tók Ragnhildur Sigurðardóttir á móti konunum sýndi þeim Gestastofuna og var hún skoðuð, sumar smökkuðu söl og lyktuðu af Ilmrey.

Þá var gengið í fylgd Ragnhildar í Salthúsið fór hún með ljóð þar fyrir utan. Var mjög áhrifamikið að standa þarna við sjóinn og hlusta á hana fara með þetta langa ljóð utanbókar að sögn kvenna sem í ferðinni voru.

Inni í Salthúsinu hafa nemendur Lýsuhólsskóla sett upp sýningu með myndum af umhverfinu, kynjamyndir og tröll eru þar og einnig leikföng barna frá því í gamla daga. Ýmsar upplýsingar má finna á spjöldum sem eru eins og saltfiskur í laginu og hanga þau uppi í bandi. Mjög skemmtilegt.

Á leiðinni má finna „aparólu“ og sumar konurnar voru nógu hugaðar til að prófa! Eftir gönguna var farið til baka í Gestastofu og þar var boðið upp á góðar veitingar. Rúmlega 20 konur voru í ferðinni sem heppnaðist mjög vel eins og fyrri hittingar í vetur. Verður samstarfsverkefni þessu haldið áfram næsta vetur og verður vonandi til þess að konur af mismunandi þjóðerni eigi auðv­eldara með að kynnast.

Birtist fyrst í Bæjarblaðinu Jökli