Kvótakerfið

Það eru gömul sannindi að matvælaframleiðsla er hverri þjóð mikilvæg.  Í okkar tilviki er það enn frekar svo enda er útflutningur og erlendar þjóðartekjur okkar afskaplega háðar fiskveiðum.  Hvernig eigum við annars að borga skuldirnar og hefja uppbyggingarstarf, án tekna utan úr heimi?

Það eru gömul sannindi að matvælaframleiðsla er hverri þjóð mikilvæg.  Í okkar tilviki er það enn frekar svo enda er útflutningur og erlendar þjóðartekjur okkar afskaplega háðar fiskveiðum.  Hvernig eigum við annars að borga skuldirnar og hefja uppbyggingarstarf, án tekna utan úr heimi?

Þegar kemur að sjávarútvegi hefur aflamarkskerfi verið valið til þess að stýra veiðunum, þ.e. kvótakerfið.  Tvö megin sjónarmið sem slíkt kerfi þarf að þjóna eru í fyrsta lagi að tryggja að veiðarnar séu sjálfbærar og s.s. ekki stunduð rányrkja.  Í öðru lagi að sóun sé lágmörkuð.  Þannig eigum við að tryggja sem mestar tekjur fyrir þjóðarbúið um ókomna tíð. 

Ef við lítum til nágranna okkar er ljóst að fiskveiðistjórnun Evrópusambandsins hefur ekki náð þessum markmiðum.  Erfitt er að benda á land þar sem sjávarútvegur er ekki ríkisstyrktur.  Margir hafa áður bent á dæmi um rányrkju og ördeyðu á miðum sem stunduð hafa verið af flota ESB landa.

Þótt okkar fiskveiðistjórnunarkerfi sé mannanna verk og auðvitað ekki fullkomið, verður ekki annað með sanngirni sagt en að við erum miklu nær því að ná þessum megin markmiðum.  Útgerðir á Íslandi eru ekki lengur ríkisstyrktar og okkur hefur gengið betur að byggja upp fiskistofna en víðast annars staðar.

Framsal kvóta hefur sumum fundist liggja vel við höggi og því gripið tækifærið til þess að gagnrýna það.   Þetta er þó nauðsynleg forsenda þess að kerfið hafi aðlögunarhæfni að breyttum forsendum hverju sinni.  Framsalið er ekki ein af höfuðsyndum Biblíunnar þvert á það sem sumir hafa látið í veðri vaka, heldur er það eingöngu tæki sem útgerðir geta beitt á ýmsan hátt.  Ef framsalið verður tekið úr sambandi við aflamarkið bresta forsendur fyrir hagkvæmum veiðum og við hverfum aftur til ríkisstyrktra útgerða áður en langt um líður.  Enginn skyldi velkjast í vafa um þetta, til þess er of mikið í húfi.

Sjávarútvegurinn hefur verið rekinn án ríkisstyrkja og það sem meira er, hann hefur styrkt ríkið umfram annan atvinnurekstur.  Þar vil ég nefna til sögunnar auðlindagjaldið sem komið var á 2002 og landsbyggðarfólk þekkir auðvitað vel.  Þarna er um viðbótar skattheimtu að ræða og ég efast um að víða í atvinnulífinu séu sambærileg dæmi.  Reyndar er auðlindagjaldið ranglátt og ber að stefna að því að leggja það af!

Í aðdraganda kosninga hefst upp rómur þeirra sem vilja gjarnan veiða atkvæði (frekar en fisk), og er þeim tamt að benda á kvótakerfið og kvótaeigendur sem þeir telja nauðsynlegt að þjóðnýta mismunandi mikið.  Ábyrgð okkar sem á hlýðum er sú, að vera gagnrýnin á það sem á borð er borið og halla okkur ekki að lýðskrumi sem ekki leiðir til hagsældar fyrir heildina.  Hvers vegna á ríkið að fara að skipta sér meira af atvinnugrein sem ekki kallar á sértækar aðgerðir?  Hvers vegna eigum við að innleiða þar sértækar aðgerðir?  Það á að leggja af auðlindagjaldið og það á gefa sjávarútveginum frið til þess að halda áfram að hámarka arðsemi í mikilvægustu gjaldeyrisskapandi atvinnugreininni.  Tal um allt annað er ábyrgðarlaust lýðskrum.

 

                                                                                                                                              Helgi Kr. Sigmundsson

 

                                                     Gefur kost á sér í 5.sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi