Neyðaraðgerð til bjargar fjölskyldum eða áframhaldandi verðmætasóun?

Í kjölfar greinar Karls V. Matthíassonar alþingismanns um frjálsar handfæraveiðar hef ég velt fyrir mér nánari þýðingu þess að gefa þessar veiðar frjálsar.

Í kjölfar greinar Karls V. Matthíassonar alþingismanns um frjálsar handfæraveiðar hef ég velt fyrir mér nánari þýðingu þess að gefa þessar veiðar frjálsar.

 

Ljóst er að vart er orðið til sá maður sem ekki gerir sér grein fyrir alvarleika efnahagskreppunnar. Ég hef m.a. lesið greinar í blöðum og á netmiðlum undanfarið um fjölskyldur sem berjast í bökkum vegna þess að atvinnumöguleikar þeirra hafa hrunið og húsnæðislán þeirra hækka með hverjum deginum á meðan fasteignaverð lækkar. Sumar þessara fjölskyldna hafa vart lengur efni á að hafa börnin á leikskóla og þúsundir manna standa frammi fyrir því að missa húsnæði sín. Margt af þessu fólki hefur reynt allt hvað það getur til að fá atvinnu, en á enga möguleika. Því miður má segja að þetta sé sá veruleiki sem blasir við allt of stórum hluta landsmanna, ekki síst á landsbyggðinni. Ástandið er í raun orðið grafalvarlegt og menn heimta lausnir og það strax. En eru einhverjar skyndilausnir í boði?

 

Ein af þeim hugmyndum sem ég hef heyrt og mér finnst athyglisverð í þessu ljósi er að sett verði reglugerð, hugsanlega til eins árs til að byrja með, sem leyfir mönnum að fara á smábátum til handfæraveiða án hefðbundinna veiðiheimilda. Hugmyndin byggist á því að smábátar (t.d. allt að 6-8 tonn) fengju heimild til að veiða bolfisk á handfæri utan aflamarks (kvóta) gegn því að þeir myndu greiða ákveðið prósentugjald af aflaverðmæti í ríkissjóð. Hugsanlegt væri að leyfa með þessu veiðar á 15.000 tonnum til að byrja með, líkt og Karl V. Matthíasson lagði til. Með þessu móti fengju fjölmargir menn út um allt land sem tilneyddir eru til að sitja heima aðgerðalausir og horfa á tilveru sína hrynja tækifæri til að bera björg í bú. Nú hlýtur að vera kominn sá tímapunktur að hrinda þarf þessari hugmynd í framkvæmd.

 

Grafalvarlegt ástand

 

Ástandið er nú þegar orðið svo alvarlegt að ég tel að ekki sé hægt að bíða lengur. Á Íslandi, og þá einna helst á landsbyggðinni, ríkir neyðarástand og við því þarf að bregðast áður en ástandið versnar. Aðgerð sem þessi myndi koma til með að gefa fólki á landsbyggðinni tækifæri sem ekki eru til staðar núna, að minnsta kosti ekki lagalega. Það sem aukin heldur fengist með þessari ráðstöfun væri að hvatinn til brottkasts myndi að líkindum snarminnka þar sem ekki væri verið að greiða háa leigu til kvótaeigenda fyrir hvert veitt kíló. Jafnvel þó smæsti fiskurinn sé vissulega verðminni, þá væri hvatinn meiri til að koma með smærri og verðminni fisk í land, þar sem greitt væri gjald til ríkisins í hlutfalli af aflaverðmæti. Þannig væri komið í veg fyrir að sjómenn myndu henda verðmætum í sjóinn með því að kasta burt undirmálsfisk, ólíkt því sem nú er. Ef þetta gæfist vel mætti hugsa sér að þessu kerfi yrði komið á laggirnar til frambúðar og þróað enn frekar.

 

Vistvænar veiðar

 

Yfir 1000 vísindamenn hafa skorað á Sameinuðu þjóðirnar að banna allar botnvörpuveiðar. Staðreyndin er sú að botnvörpuveiðar eru stórskaðlegar lífríki sjávar. Ég heyrði gamlan sjómann líkja skaðsemi botnvörpuveiða við það ef skriðdreki færi yfir land, móa og meli með 20 tonn af kúlum, vírum, netum og hlerum í eftirdragi! Ljóst er að slíkt getur aldrei farið vel með vistarverur fisksins og spurning hvort ekki sé svo komið að takmarka verði togveiðar eins og best verður við komið og við reynum að ná eins miklum hluta bolfisksins og mögulegt er á vistvænan hátt. Ljóst er hins vegar að sumum fisktegundum verður mjög erfitt að ná á annan hátt. Krafan um vistvænar veiðar er farin að verða mun meira áberandi í alþjóðasamfélaginu og spurning er jafnvel hvort hreinlega verði ógerlegt eftir nokkra áratugi að selja fisk sem ekki er veiddur á þann hátt? Yrði sú leið farin sem rakin var hér að ofan gæti það hugsanlega verið fyrsta skref Íslendinga til þess að þróa kerfi sem byggir á vistvænum veiðum. Slíkar veiðar myndu einnig leiða til þess að mun meira af verðmætunum yrði eftir hér á landi en nú er.

 

Sóun á verðmætum

Staðreyndin er sú að togskip skila mun minnu til íslensks samfélags en smærri útgerðir. Þetta má meðal annars sjá af því að togskipin veita smærri sjávarbyggðunum litla vinnu, en dagróðrarbátar sem nota vistvæn veiðarfæri veita miklu fleira fólki vinnu, jafnt í landi sem og á sjó. Þá eyðir stórt togskip um það bil 17% af aflaverðmæti í olíukostnað á meðan smábátar fara með um það bil 3%. Munurinn er því um 14% af aflaverðmæti! Þetta eru því gríðarlegar fjárhæðir. Því má sjá að þarna á sér stað gífurleg sóun á gjaldeyri, allt í nafni hagræðingar. Fyrir hverja er svo þessi hagræðing? Fyrir örfáa kvótahafa sem vilja ná sem mestum verðmætum upp á sem stystum tíma. Augljóst er að sá gjaldeyrir sem sóað er í olíu fyrir risatogskip kemur frá auðlindinni sjálfri, fiskinum. Þeim verðmætum sem auðlindin skilar af sér væri auðvitað mun betur varið, að eins stórum hluta og hægt er, í vasa fólksins í landinu í stað þess að renna m.a. í vasa erlendra olíuframleiðenda og lánadrottna yfirskuldsettra útgerðanna. En í staðinn er eins miklu kostað til og mögulegt er til að ná í fiskinn í nafni hagræðingar stórfyrirtækja.

 

Ég heyrði mætan mann segja að með þessu áframhaldi endi þetta kannski með því að keyptur verður einn ofurtogari með 500 manna áhöfn sem veiðir allan kvóta Íslendinga! Allt í nafni hagræðingar á meðan fullhraust fólk situr í stórum stíl heima aðgerðalaust. Ljóst er í það minnsta að við núverandi kerfi verður ekki búið lengur. Meginþorri þjóðarinnar krefst breytinga.

 

                                                             Þórður Már Jónsson,
                                                             formaður Samfylkingarinnar á Bifröst