Ólína stefnir í efstu tvö sætin hjá Samfylkingunni í NV-kjördæmi

Ólína Þorvarðardóttir gefur kost á sér í forystusæti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi í komandi Alþingiskosningum.  Hún gerði grein fyrir framboðinu á vefsíðu sinni, sjá nánar hér fyrir neðan:

Ólína Þorvarðardóttir gefur kost á sér í forystusæti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi í komandi Alþingiskosningum.  Hún gerði grein fyrir framboðinu á vefsíðu sinni, sjá nánar hér fyrir neðan:

 

„Jæja, þá er komið að því … og enginn veit sína ævina … og allt það. Ég er á leið í prófkjör fyrir Samfylkinguna í Norðvesturkjördæmi og stefni á annað efstu sætanna á framboðslistanum fyrir næstu Alþingiskosningar.

 

Eins og blogglesendur mínir vita hef ég ítrekað verið spurð að þessu undanfarnar vikur og mánuði. Ég hef svarað af varúð en ekki hugsað mikið um þetta fyrr en núna um helgina. Þá fóru hlutirnir að gerast.

 

Og eftir allmörg samtöl og tölvupósta er niðurstaðan sú að ég ætla fram.

 

Í almennum orðum get ég sagt það um sjálfa mig að ég er sjálfstæð og framsækin kona með ríka réttlætiskennd. Ég hef látið málefni landsbyggðarinnar til mín taka í ræðu og riti undanfarin ár enda er ég búsett á Ísafirði og þekki mætavel hvar eldarnir brenna heitast í dreifðum byggðum landsins.

 

Um þessar mundir berst ég fyrir lýðræðisumbótum á Íslandi. Ég er í góðum hópi Íslendinga sem efnt hafa til undirskriftasöfnunar á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is  fyrir því að boðað verði til stjórnlagaþings og þjóðinni gefinn kostur á að velja verðuga fulltrúa til þess að setja nýja stjórnarskrá.

 

Í kjölfar þess efnahags- og siðferðishruns sem dunið hefur yfir tel ég brýnt að Alþingi Íslendinga endurvinni traust meðal þjóðarinnar og rísi undir hlutverki sínu sem leiðandi löggafarsamkoma í lýðfrjálsu landi.

 

Brýnast um þessar mundir er þó að verja lífskjör almennings í landinu við þau erfiðu efnahagsskilyrði sem hér ríkja. Stjórnvöld verða að hafa forgangsröðunina í anda mannúðar og jafnaðarstefnu þegar kemur að niðurskurði og aðhaldsaðgerðum hjá hinu opinbera. Að byrðunum verði jafnað réttlátlega á bökin. Að þess verði gætt að erfiðar aðgerðir komi síst niður á þeim sem standa höllum fæti fyrir, t.d. sjúklingum, öryrkjum, efnalitlum heimilum eða barnafjölskyldum.

 

Ég vil standa vörð um mannréttindi og lýðræði, jöfnuð og sanngjarnar leikreglur. Mín skoðun er að stjórnmálamenn og stjórnsýslan öll eigi að bera ábyrgð og standa vörð um hlutverk stofnana þannig að þær fái að sinna lögbundnu hlutverki sínu án inngripa eða óeðlilegra afskipta stjórnmálamanna eða hagsmunaafla.

 […]

 Í stuttu máli sagt:

 

Ég er kona á besta aldri – nægilega lífsreynd til þess að þora að standa í báða fætur. Svolítið sorfin af sjávargangi lífsins en bjartsýn og drífandi. Verði mér treyst til þess að taka sæti á löggjafasamkundunni mun ég leggja mig alla fram í þágu þeirra mála sem ég tel horfa til framfara.

 

Mér er tamt að nota brjóstvitið ekki síður en hugvitið og hlýða eigin samvisku. Ég hyggst halda því áfram.“