Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Refsum ekki okkur sjálfum

Fréttir berast um það að í kosningunum ætli sér margir að skila auðu eða sitja heima. Það sé gert í þeim tilgangi að refsa stjórnmálamönnum fyrir að hafa ekki staðið vaktina sem skyldi.

Fréttir berast um það að í kosningunum ætli sér margir að skila auðu eða sitja heima. Það sé gert í þeim tilgangi að refsa stjórnmálamönnum fyrir að hafa ekki staðið vaktina sem skyldi.

Vera má að sú afstaða sé réttmæt að mörgu leiti. Hins vegar er ólíklegt að sá refsivöndur hitti þá sem skyldi. Líklegra er að með þeirri athöfn muni kjósendur taka út refsinguna á sjálfum sér eftir kosningar.

Með því að stuðla að hreinni vinstristjórn væri verið að kalla eftir aukinni skattlagningu, flóknara skattkerfi og auknu valdi stjórnmálamannanna. Það felst í því mikil þversögn að gefa frat í pólitíkina með því að stuðla að auknu valdi stjórnmálamanna!

Boðaðir hafa verið fasteignaskattar á ný, sem þýða í rauninni að eftir því sem íbúðareigandinn losar sig út úr skuldaklafanum fær hann að borga meira í ríkissjóð. Óljóst er hvernig þeir sem farnir eru af vinnumarkaði eiga að finna fé til að borga slíkan skatt.

Kosningarnar munu ákvarða þá stefnu sem Ísland mun taka á næstu misserum. Framundan er erfið barátta í efnahagsmálum, sem mun reyna mikið á hverja þá flokka sem koma til með að stýra landinu eftir kosningar.

Það er því mikilvægt að sú stefna sem tekin verður leiði okkur út úr vandanum en ekki í enn frekari vandamál og flækjur.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram stefnu sína í efnahagsmálum. Með sköpun nýrra starfa, hagræðingu og skynsamlegri nýtingu auðlinda munum við ná að vinna okkur út úr kreppunni. Slík lausn byggir vissulega ekki á töfralausnum eða kraftaverkum, en hún er raunsæ og raunhæf og hún mun skila Íslandi aftur út úr vandanum.

Samfylking og Vinstri Grænir, sem hafa boðað stjórnarsamstarf eftir kosningar, boða stefnu skattahækkanna, fasteignaskatta og ríkisvæðingar atvinnulífsins. Hugmyndir þeirra um atvinnuuppbyggingu felast í því að skattgreiðendur greiði launin og þannig bítur hringavitleysan í skottið á sér.

Þannig verða engin ný verðmæti til og mjög dýrmætur tími fer til spillis.

Refsum ekki okkur sjálfum.
Kjósum xD

                                                                                                                      Örvar Marteinsson

Höfundur skipar 7.sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í NV.kjördæmi.