Skattkerfið þarf að nota til hagsbóta fyrir skattgreiðendur. Það er hægt að bæta afkomu ríkissjóðs án þess að auka skattheimtu

Flestir eru sammála um að efnahagslíf þjóðarinnar glímir nú við tröllvaxna erfiðleika og að aðgerða er þörf. Mín skoðun er sú að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða sem eru til þess fallnar að bæta afkomu ríkissjóðs, án þess að sá peningur sé sóttur í vasa skattgreiðenda.

Flestir eru sammála um að efnahagslíf þjóðarinnar glímir nú við tröllvaxna erfiðleika og að aðgerða er þörf. Mín skoðun er sú að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða sem eru til þess fallnar að bæta afkomu ríkissjóðs, án þess að sá peningur sé sóttur í vasa skattgreiðenda. Það verður að forgangsraða og koma í veg fyrir það eftir fremsta megni að seilst verði í vasa skattgreiðenda. Skattkerfið er verkfæri sem líkja má við skóflu. Sé því beitt á rangan hátt verður engu áorkað og menn fá í bakið. Sé því beitt á réttan hátt verður mikið úr verki og allir eru sáttir. Að mínu mati þarf í samráði við atvinnulífið að vinna að skattalagabreytingum til þess að koma til móts við einstaklinga og fyrirtæki í landinu. Það ber að forðast það í lengstu lög að þessi peningur verði sóttur í vasa almennings með hærri sköttum.

Það verður að hugsa í lausnum
Það verður að hugsa í lausnum, rýna til gagns og benda á mögulegar lausnir. Hér fylgir með dæmi um breytingu á lögum um tekjuskatt sem er til þess fallin að bæta afkomu ríkissjóðs án þess að hækka skatta. Hlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) er að tryggja jafnrétti til náms óháð efnahag, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1992. Eðli máls samkvæmt fá námsmenn greiðslur á meðan á lánshæfu námi stendur, en jafnrétti til náms er ekki ókeypis. Þeir sem lokið hafa námi þurfa, eðlilega, að greiða til baka sín námslán. Námslánin eru vissulega veitt á hagstæðum lánskjörum auk sveigjanlegra greiðsluskilmála, en þau eru verðtryggð.Í ljósi þeirra verðbólgu sem hefur verið síðustu misseri er ljóst að það gjald sem fólk þarf að gjalda fyrir jafnrétti til náms er dýrum dómi keypt.

Einfaldar breytingar

Þessi tillaga felur í sér að einstaklingum sem greiða námslán sín niður umfram skyldubundnar greiðslur verði heimilaður frádráttur frá tekjuskattsstofni að sömu upphæð. Það felur í sér að velji fólk með skattskyldar tekjur á Íslandi að ráðstafa hluta tekna sinn í að greiða niður námslánin sín fær það afslátt í formi frádráttar frá tekjuskattstofni. Launin verða því meira virði í samanburði við tekjur sem eru skattlagðar erlendis og því efnahagslegur hvati fyrir ungt fólk til þess að starfa á Íslandi. Um væri að ræða tiltölulega einfalda breytingu á lögum um tekjuskatt nr. 90/2003, þar sem einum frádráttarlið væri bætt við. Einföld breyting sem væri til hagsbóta fyrir alla hlutaðeigandi.

Aukið innstreymi fjármagns til LÍN þýðir minni fjárþörf frá hinu opinbera
Lögbundið hlutverk LÍN er að tryggja jafnfrétti til náms óháð efnahag, sjóðurinn þarf því alltaf að lána þeim sem til sjóðsins leita. Nú mun fjárþörf LÍN aukast þar sem aukin aðsókn er í nám. Þegar sjóðnum skortir fjármuni til útlána þá er það ríkissjóður sem hleypur undir bagga. Með því að hvetja til hraðari niðurgreiðslu námslána eins og þessi tillaga felur í sér aukast fjármunir sem LÍN hefur til ráðstöfunar. Vissulega verður sjóðurinn af vaxtatekjum sem annars hefðu skilað sér út námstímann, en samkvæmt kenningum um núvirði peninga að þá er króna í dag meira virði en króna á morgun. Ríkissjóður verður vissulega af skatttekjum en á móti kemur að fjárþörf LÍN lækkar, aukið innstreymi fjármagns til LÍN þýðir minni fjárþörf sjóðsins. Það er jú ríkissjóður sem fjármagnar LÍN. Tillagan felur í sér að ríkið veiti skattafslátt af hraðari niðurgreiðslu námslána. Slíkt myndi hvetja til hraðari niðurgreiðslu og veita þeim sem vilja greiða upp sín námslán fyrr en ella kost á að gera slíkt á hagstæðan hátt, auk þess að dregið yrði úr fjárþörf LÍN frá hinu opinbera.

Stjórnmálamenn eiga að gæta hagsmuna almennings
.
Um er að ræða tillögu sem bætir afkomu ríkissjóðs án þess að koma niður á neinum í formi aukinna útgjalda eða aukinnar skattheimtu. Stjórnmálamenn virðast stundum gleyma hvaðan umboð þeirra kemur og hagsmuna hverra þeir eiga að gæta. Við þær aðgerðir sem nú standa fyrir dyrum er nauðsynlegt að gleyma ekki hagsmunum almennings og gæta þess að aðgerðir þær komi ekki með óréttmætum hætti niður á þeim sem minnst mega sín. Það er hægt að bæta afkomu hins opinbera með fleiri aðferðum heldur en að skattpína almenning. Ofangreind tillaga felur í sér efnahagslegan hvata fyrir fólk til þess að greiða niður námslánin sín með 37,2% afslætti ef svo má að orði komast, tillagan bætir afkomu ríkissjóðs og rúsínan í pylsuendanum er að tillagan felur ekki í sér að hækka þurfi skatta eða skerða þjónustu við íbúa landsins.

Garðar Víðir Gunnarsson, lögfræðingur.
Höfundur býður sig fram til 3. sætis í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.