Bæjarstjórinn okkar allra


Allt frá því að þessi blandaði og skemmtilega samsetti hópur, sem Okkar Stykkishólmur er, hóf samtal hefur verið einhugur um að leggja áherslu á að mikilvægar ákvarðanir séu teknar með samstarfi allra bæjarfulltrúa í stað meirihlutaræðis. Okkar Stykkishólmur er breiður hópur fólks sem vill láta gott af sér leiða án nokkurra hagsmunatengsla og bjóða upp á ferska tóna í bæjarmálum. Ekkert okkar sækist eftir sæti bæjarstjóra heldur teljum við að faglegur, reyndur stjórnandi væri best til þess fallinn að vinna verkefnin í umboði bæjarstjórnarinnar í heild. Í samræmi við það leggur listinn til að auglýst verði eftir bæjarstjóra að kosningum loknum. Umsóknir yrðu metnar faglega af ráðningarstofu og hæfasti umsækjandinn ráðinn af bæjarstjórninni allri. Bæjarstjóraefni H-listans er að sjálfsögðu hvattur til þess að sækja um stöðuna ef til þess kæmi að Okkar Stykkishólmur hlyti meirihluta atkvæða.

Okkar Stykkishólmur – Stykkishólmur okkar allra