Góður dagur til að skrifa grein

Hrafnhildur Hallvarðsdóttir 1. sæti H-listans

Það var fallegur laugardagsmorgun þegar ég gekk í góða veðrinu heim frá því að gefa kindunum mínum í nýræktinni. Sólin skein í heiði og fyrstu merki vorsins farin að sjást og heyrast. Þar sem eitt af verkefnum vikunnar var að skrifa grein til birtingar í Stykkishólmspóstinum þá datt mér í hug að þessi dagur væri góður til að skrifa greinina. Greinin er skrifuð til að kynna mig sem oddvita á H-lista sem er í framboði til komandi sveitarstjórnarkosninga. Þátttaka mín í sveitarstjórnarmálum á sér ekki langa sögu. Ég var formaður skólanefndar kjörtímabilið 2010-2014 og fannst ánægjulegt að koma að þeim málaflokki enda er hann mér mjög hugleikinn. Það var svo fyrir fjórum árum að mér var boðið 6. sætið á H-listanum en sá listi bauð fram í fyrsta skipti í sveitarstjórnarkosningum vorið 2014. Þar sem það eru um 30 ár síðan ég hóf búsetu í Stykkishólmi fannst mér að nú væri kominn tími til að ég leggði hönd á plóginn. Ég þurfti því ekki að hugsa mig lengi um og þáði það boð, enda fannst mér ekki rétt að ætlast til að aðrir kæmu alltaf að vinnu við sveitarstjórnarmálin fyrir mína hönd þegar það er nokkuð ljóst að einhver þarf að vinna þau. Síðastliðið kjörtímabil, sem hefur verið mjög lærdómsríkur tími, hef ég verið formaður skólanefndar og varamaður í bæjarstjórn.

Fræðslumál er umfangsmikill málaflokkur hjá sveitarstjórnum og mikilvægt að til þeirra sé vandað. Skólastarf í Stykkishólmi er með miklum ágætum og því er sinnt af fagfólki sem hefur mikinn metnað fyrir starfinu. Það kom skýrt fram í könnun sem lögð var fyrir foreldra nemenda í leik-, grunn- og tónlistarskóla þegar verið var að vinna skólastefnu bæjarins að viðhorf foreldra og annarra íbúa til skólanna og tómstundastarfsins eru afar jákvæð. Á þessu kjörtímabili var skrifuð ný skólastefna fyrir Stykkishólmsbæ, lokið var vinnu við námskrá leiksskólans, húsgögn í grunnskólanum hafa verið endurnýjuð, vinnuaðstaða kennara grunnskólans bætt til muna og húsnæði leikskólans var stækkað með tilkomu Bakka.

Með byggingu bókasafnsins opnast nýir möguleikar og ég hef trú á að við eigum eftir að sjá ýmsar nýjungar líta dagsins ljós í skólastarfinu. Í bókasafninu fær skólinn aukið rými, betra aðgengi að bókum og margmiðlunarefni. Við flutning bókasafns grunnskólans yfir í nýbygginguna stækkaði kennslurými skólans til muna þar sem bókasafnsrýmið er nú kennslustofa.

Það eru enn mörg verkefni óunnin í þessum málaflokki. Fyrrnefnd skólastefna var skrifuð til fimm ára og það eru því þrjú ár enn til stefnu að ná þeim markmiðum sem þar voru sett fram. Mörgum markmiðum hefur verið náð nú þegar og önnur eru í vinnslu, má þar nefna vinnu og hönnun við skólalóð grunnskólans. Ég hvet bæjarbúa til að kynna sér skólastefnuna en hægt er að lesa hana á heimasíðu Stykkishólmsbæjar.
Þegar ákveðið var að H-listinn myndi bjóða fram í komandi sveitarstjórnarkosningum var mér boðið að taka 1. sætið og leiða listann. Eins og kunnugt er tók ég þessu boði því eins og áður fannst mér ég ekki geta setið hjá. Mig langar að hvetja fólk til að sitja ekki hjá. Mig langar að íbúar Stykkishólms komi með okkur að málefnavinnunni sem nú fer fram og leggi þar með hönd á plóginn.

Hvers vegna fannst mér þetta vera góður dagur til að skrifa grein? Það var vegna þess að mér fannst þessi fallegi dagur minna mig á hve gott er að búa í Stykkishólmi. Hér hafa börnin mín alist upp, ég hef unnið stærstan hluta af starfsævinni, eignast fullt af góðum vinum, rekið fyrirtæki og tekið þátt í öllu mögulegu sem hægt er að taka sér fyrir hendur í samfélagi af þessari stærð. Hér er gott að búa og mig langar að vinna að því ásamt frábæru öðru fólki sem er með mér á H-listanum að gera góðan bæ betri. Ég hvet bæjarbúa til að taka þátt og koma að málefnavinnunni með okkur.

Hrafnhildur Hallvarðsdóttir
1. sæti H-listans