Þriðjudagur , 20. nóvember 2018

Heilbrigðismál – okkar hjartans mál

Anna Margrét Pálsdóttir, 8. sæti H-lista
Hildur Lára Ævarsdóttir, 6. sæti H-lista

Við undirritaðar, fulltrúar H-listans í Stykkishólmi, eigum það sameiginlegt að hafa byrjað okkar feril í heilbrigðismálum á ganginum á St. Fransiscusspítala. Síðan eru liðin nokkur ár og höfum við nú báðar menntað okkur á sviði heilbrigðisvísinda. Hildur er menntaður sjúkraliði og er að ljúka námi í hjúkrunarfræði. Fyrir utan St. Frasiscusspítala þá hefur hún einnig starfað á Hjarta- lungna- og augnskurðdeild Landspítalans, hjúkrunarheimilinu Sóltúni og dvalarheimili aldraðra í Stykkishólmi. Anna Margrét útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur árið 2016 og hefur starfað síðustu þrjú ár á gjörgæsludeild Landspítalans og hefur m.a. unnið á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ í Reykjavík. Við erum því báðar með góða og fjölbreytta reynslu af störfum á heilbrigðissviði og eigum sameiginlegt, fyrir utan háskólagráðu úr sama skóla, að brenna fyrir sjúkrahúsinu okkar og heilbrigðismálum í Stykkishólmi.

Heilbrigðisþjónusta er ein mikilvægasta grunnstoð hvers samfélags og um leið sú þjónusta sem hefur gegnum árin lent hvað mest undir niðurskurðarhnífnum. Afleiðingar þess þekkjum við öll sem höfum unnið við eða þurft að nýta sér heilbrigðisþjónustuna undanfarin ár, ekki síst á landsbyggðinni. Við báðar byrjuðum á vinna á legudeild St. Fransiscusspítalans rétt fyrir hrun þegar starfsemin var í fullum blóma ef svo má segja. Staðan í dag er vissulega allt önnur, legurýmum hefur fækkað sem og stöðugildum starfsmanna. Á sama tíma hefur þörf fyrir heilbrigðisþjónustu aukist hratt undanfarin ár m.a. vegna hækkandi lífaldurs fólks og aukins fjölda ferðamanna. Álagið á heilbrigðiskerfið hefur ekki síður aukist vegna fólksflótta úr stéttum heilbrigðisstarfsfólks eins og þekkt er og hefur þurft að bregðast við því með því að fækka legurýmum á sjúkrastofnunum sem og hjúkrunar- og dvalarheimilum. Fjöldi einstaklinga sem eru á biðlista eftir hjúkrunar- og dvalarrýmum hefur aukist talsvert á undanförnum árum eða um 25% á síðustu 7 árum samkvæmt tölum frá Landlækni. Á sama tíma hefur einstaklingum eldri en 80 ára fjölgað um tæplega 300 á landsvísu sem útskýrir að hluta til þessa aukningu á biðlistum. Samkvæmt tölum frá Landlækni frá árinu 2016 er reiknaður meðalbiðtími eftir legurými um 188 dagar á landsvísu sem er þó mismunandi eftir heilbrigðisumdæmum en athygli okkar vekur að biðtíminn er lengstur á Vesturlandi eða um 222 dagar að meðaltali. Á Dvalarheimili aldraðra í Stykkishólmi hafa mörg dvalarrými breyst í hjúkrunarrými vegna aukinnar hjúkrunarþyngdar einstaklinga sem þar dvelja og er það í takt við þróunina í þessum efnum, þ.e. lífaldur einstaklinga fer hækkandi og sömuleiðis þörfin fyrir flókna og krefjandi umönnun.

Það eru mikil gleðitíðindi að til standi að fjölga hjúkrunarrýmum á landsbyggðinni, sér í lagi hérna í Hólminum. Þar sem ekki hefur orðið af sameiningu nú þegar að þá er okkar markmið fyrir komandi tímabil að hlúa vel að eldriborgurum bæjarins og gera okkar besta til þess að gera dvöl þeirra á dvalaheimilinu sem ánægjulegasta. Það má þó ekki gleyma því að heilbrigðisþjónusta snýr ekki eingöngu að eldriborgurum heldur nær hún yfir allan aldur og því þurfum við einnig að hlúa vel að starfsemi heilsugæslunnar. Við erum ánægðar og þakklátar fyrir þær viðtökur sem framboðið fékk á málefnafundum og þeim góðu ábendingum og umræðum sem þar áttu sér stað. Við getum því ekki annað sagt en að við séum spenntar fyrir komandi tímum og hlökkum til að starfa í þágu bæjarbúa.

Hildur Lára Ævarsdóttir, 6. sæti og Anna Margrét Pálsdóttir, 8. sæti H-lista