Hólmurinn heillar

Jakob Björgvin Jakobsson Bæjarstjóraefni H-listans í Stykkishólmi

Senn líður að kosningum þar sem bæjarbúum gefst kostur á að velja til starfa fulltrúa til að standa vörð um hagsmuni íbúa. Þegar nýr framboðslisti H-lista í Stykkishólmi var kynntur þann 11. mars sl. var jafnframt tilkynnt að undirritaður yrði bæjarstjóraefni H-listans hljóti hann meirihluta í komandi kosningum. Í ljósi þess að ég fluttist búferlum með fjölskyldu minni frá Stykkishólmi á framhaldsskólaaldri þykir mér við hæfi að ég kynni mig á ný fyrir bæjarbúum og þá hvað hefur drifið á mína daga eftir að ég flutti.

Fjölskyldan
Ættfræðiáhugi Íslendinga er mikill og eru Hólmarar engin undantekning frá öðrum landsmönnum hvað það varðar. Ég er fæddur í Stykkishólmi 6. september 1982. Foreldrar mínir heita Sigríður Dröfn Björgvinsdóttir, dóttir Sigrúnar Elínar Lárusdóttur og Björgvins Kr. Þorvarðarsonar sem búsett eru í Stykkishólmi og Jakob Ingi Jakobsson, sonur Kristínar H. Hansen og Jakobs Kr. Gestssonar sem bjuggu síðast í Frúarhúsinu áður en þau fluttust búferlum. Uppeldisfaðir minn er Guðmundur Ólafur Bæringsson, sonur Bærings Jóns B. Guðmundssonar og Jónu Grétu Magnúsdóttur en þau eru búsett í Stykkishólmi. Við Soffía Adda A. Guðmundsdóttir, sambýliskona mín búum í Kópavogi ásamt börnunum okkar tveimur, Evu Sigríði sem fædd er árið 2004 og Jakobi Elí sem fæddur er árið 2016.

Þekking og reynsla sem nýtist í starfi
Með móður minni Sigríði og Guðmundi fluttist ég fyrir 20 árum síðan frá Stykkishólmi á sveitabæ á Suðurlandi. Ég lauk námi við Fjölbrautaskóla Suðurlands, af viðskipta- og hagfræðibraut, áður en ég hóf nám í lögfræði við Háskólann í Reykjavík.
Í dag starfa ég sem lögmaður á lögmannsstofunni OPUS lögmenn þar sem ég er meðeigandi og veiti fyrirtækja- og skattasviði forstöðu. Þar á undan starfaði ég sem lögmaður hjá Arctic lögfræðiþjónustu, þar sem ég var einn stofnandi og eigandi, ásamt því að starfa samhliða lögmennsku sem löggiltur fasteignasali. Áður starfaði ég sem verkefnastjóri hjá endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtækinu Deloitte um árabil, en áður en ég gekk til liðs við Deloitte hafði ég m.a. starfað hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins og skattstjóranum í Reykjavík.
Í störfum mínum í gegnum tíðina hef ég unnið að mjög fjölbreyttum verkefnum, sér í lagi tengdum fyrirtækja- og skattarétti. Hef í því sambandi m.a. sinnt verkefnum fyrir mörg af stærstu fyrirtækjum landsins, þ. á m. varðandi endurskipulagningu, skattaskipulagningu, ráðgjöf til stjórnenda, félagarétt og almenna lagalega ráðgjöf, ásamt því að hafa veitt ráðgjöf og unnið verkefni fyrir sveitarfélög og aðra opinbera aðila. Samhliða störfum mínum hef ég einnig sinnt kennslu, m.a. í lögfræði- og skattahluta námskeiðs til prófs til að öðlast réttindi sem viðurkenndur bókari og námskeiðum hjá Háskóla Íslands á sviði félaga- og skattaréttar, þ. á m. um ábyrgð og skyldur stjórnenda. Þessi þekking og reynsla af stjórnsýslustörfum og lagaumhverfi stjórnsýslunnar ásamt reynslu úr atvinnulífinu og þekkingu á fjármálaumhverfi og reikningshaldi fyrirtækja og sveitarfélaga mun án efa vera mér gott veganesti fái ég tækifæri til að gegna stöðu bæjarstjóra fyrir bæjarbúa.

Gott aðgengi að bæjarstjóra
Þrátt fyrir að kjörnir fulltrúar séu kosnir til að sinna verkefnum fyrir hönd bæjarbúa fjögur ár í senn er mikilvægt að stjórnendur, ekki síst bæjarstjóri, eigi samráð við íbúa á sem víðtækastan hátt. Bæjarstjóri á að vera virkur þátttakandi í samfélaginu og aðgengilegur öllum bæjarbúum. Mikilvægt er að stjórnendur bæjarins hafi gott samráð við íbúa t.a.m. með borgarafundum, íbúaþingum og í einstaka málum gæti íbúakosning komið til greina. Þannig er ekki einungis mikilvægt að bæjarstjóri hafi yfir að búa þekkingu og reynslu af opinberri stjórnsýslu, fjármálum, stjórnun og rekstri, heldur er einnig mikilvægt að bæjarstjóri búi yfir persónulegri hæfni, hvort sem litið er til samskipta og samstarfshæfni, frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum og metnaði til að ná árangri í starfi. Þá er mikilvægt að bæjarstjóri sé með stefnumótandi hugsun og hafi áhuga á uppbyggingu samfélagsins. Það sem skiptir jafnvel meira máli í starfi bæjarstjóra er að hafa tileinkað sér þann mikilvæga eiginleika að hlusta og bera virðingu fyrir sjónarmiðum annarra.

Stoltur Hólmari!
Ég er stoltur Hólmari og ekki að ástæðulausu. Það er ekki sjálfgefið að njóta þeirra forréttinda að stíga sín fyrstu lífsins skref í Stykkishólmi, þessari fjölskylduparadís sem einkennist af frelsi, samheldni, skilningi, vináttu og öryggi. Aðstæðurnar voru fullkomnar fyrir orkumikinn dreng sem þurfti á þessu öllu að halda. Þessi mikilvægu mótunarár, í bestu mögulegu skilyrðum, lögðu mikilvægan og góðan grunn að því að geta tekist á við þær áskoranir sem síðar tóku við.
Bæjarfélagið hefur á svo margan hátt sýnt af sér frumkvæði og framtaksvilja til að bæta hag og umhverfi íbúa bæjarins og verið á mörgum sviðum fyrirmynd annarra sveitarfélaga. Það var gott veganesti sem ég fór með frá Stykkishólmi á sínum tíma og væri það minn heiður að fá að starfa fyrir íbúa Stykkishólmsbæjar á næsta kjörtímabili og gefa þannig til baka til samfélagsins.
Ég vil að lokum þakka fyrir þau góðu samtöl sem ég hef átt við íbúa Stykkishólms á undanförnum dögum og ég hlakka til að eiga við ykkur frekari viðræður ásamt frambjóðendum H-listans á komandi vikum.

Jakob Björgvin Jakobsson
Bæjarstjóraefni H-listans í Stykkishólmi