Horfum til framtíðar

Á ferðum mínum um bæinn síðustu vikurnar hef ég kynnst því góða og metnaðarfulla starfi sem unnið er hér í Stykkishólmi. Mér varð það líka ljóst að þegar teknar eru ákvarðanir um byggingar opinberra eigna, þá eru þær byggðar af fagmennsku og metnaði og með framtíðarhugsun að leiðarljósi. Nægir að nefna grunnskólann, Íþróttahúsið, St. Franciskussjúkrahúsið, leikskólann, og sundlaugina sem dæmi. Ljóst er að það varðar íbúa sveitarfélags miklu hvort atvinnulíf sé blómlegt og oftast er það forsenda fyrir tilvist þess. Til að náist góður árangur þarf í öllum rekstri fyrsta flokks starfsfólk og við höfum verið svo lánsöm að hafa slíka starfskrafta hér í Stykkishólmi. Á ég þá bæði við þau fyrirtæki sem rekin eru hér og stofnanir bæjarins.

Nú á dögunum gekk ég inn í „Nýja-skólann“, eina af þeim byggingum sem byggð var af metnaði til framtíðar, í fyrsta skipti frá því að ég lauk þar skólagöngu minni í Stykkishólmi 16 ára gamall. Þegar ég gekk þar inn sveif yfir mig djúp tilfinning; þakklæti. Þakklæti fyrir þá umgjörð sem mér var búin. Eftir að hafa endurnýjað kynni mín við Stykkishólm undanfarna mánuði er óhætt að segja að ég sé stoltur af bænum mínum.

Uppbygging á næstu árum

Ljóst er að nú er kominn tími á aðgerðir í málefnum eldri borgara og hefur fyrsta skrefið  verið stigið í þeim efnum með undirskrift samkomulags milli velferðarráðuneytis og bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar um uppbyggingu og um leið breytingu á hluta húsnæðis sjúkrahússins í hjúkrunarheimili. Samningurinn tryggir til framtíðar þjónustu við aldraða í Stykkishólmi en um leið framtíð St.Franciskussjúkrahússins sem rekið er á vegum Heilbrigðisstofnunar Vesturlands. Ásamt þessum framkvæmdum er gert ráð fyrir því að núverandi húsnæði Dvalarheimilisins verði breytt í leiguíbúðir fyrir aldraða ásamt þjónustumiðstöð fyrir heimaþjónustu aldraðra. Við byggingu nýs hjúkrunarheimilis verður Eden hugmyndafræðin höfð að leiðarljósi en stefnan er alþjóðleg hugmyndafræði sem dvalarheimili víða um heim vinna eftir. Með stefnunni er lögð áhersla á sjálfræði íbúa og einstaklingsmiðaða þjónustu í heimilislegu umhverfi. Mikið er lagt upp úr félagslega þættinum og að íbúar séu ekki alltaf í hlutverki þiggjanda heldur fái tækifæri til að gefa af sér og finna að þeir geti líka gert gagn og hjálpað öðrum.

Í samræmi við stefnuskrá H-listans er einnig forgangsmál að skipuleggja lóð umhverfis dvalarheimilið þannig að hún verði aðgengileg fyrir íbúa, svo sem bílastæði, grasfleti og annað til útiveru. Þegar horft er lengra fram í tímann er ljóst að þar sem hlutfall aldraðra fer hækkandi og gerðar eru meiri kröfur en fyrr um góða þjónustu er einnig brýnt, samhliða komandi framkvæmdum, að horfa til lengri tíma en fjögurra ára í senn. Í þessu sambandi tel ég skynsamlegt að í Stykkishólmi eigi sér stað samtal á milli bæjarbúa um framtíðarstaðsetningu íbúða fyrir eldri borgara og hvort skynsamlegt sé að hefja undirbúning í aðal- og/eða deiliskipulagi að nýrri staðsetningu fyrir íbúðir eldri borgara, nærri verslun og þjónustu í samræmi við þarfir og óskir þeirra og annarra íbúa í bænum.

Önnur verkefni liggja einnig fyrir. Sem dæmi má nefna að tryggja þarf nægt framboð byggingarlóða fyrir íbúða- og atvinnuhúsnæði, tryggja félagsmiðstöðinni framtíðarhúsnæði, huga að stækkun leikskólans og skipulagi lóðarinnar og svæðisins í kringum grunnskóla, Amtsbókasafn og íþróttamiðstöð. Einnig liggja fyrir drög að teikningum að stækkun grunnskólans og nýjum tónlistarskóla sem mun rísa á sömu lóð. Það er ljóst að ekki verður allt gert í einu en í samræmi við stefnuskrá H-listans verður lögð áhersla á að unnin verði langtímaáætlun um þessar framkvæmdir og aðrar sem huga þarf að og þeim forgangsraðað í þágu íbúa allra og með þátttöku þeirra.

Blómlegt samfélag til framtíðar

Það er óhætt að fullyrða að í Stykkishólmi er blómlegt samfélag í miklum uppvexti, íbúum fjölgar og  ungt fólk velur í auknum mæli að flytja í Hólminn og setjast hér að og ekki er það að ástæðulausu. Það er mikilvægt að horfa til framtíðar og halda áfram að byggja hér upp fallegt og fjölskylduvænt samfélag og á sama tíma að standa vörð um fjölbreytt atvinnulíf, nýsköpun og opinber störf í bæjarfélaginu. Þá þurfa stjórnendur bæjarins að hafa í huga mikilvægi þess að ná jafnvægi milli mismunandi krafna og væntinga íbúa og taka afstöðu til mála út frá mati á heildarhagsmunum. Stjórnendur bæjarins þurfa áfram að sinna hagsmunagæslu og standa vörð um hagsmuni bæjarbúa á öllum sviðum, einnig gagnvart ríkisvaldinu og þar er mikilvægt að bæjarstjóri láti sitt ekki eftir liggja. Á sama tíma og skynsamlegt er að greiða skuldir til að lækka fjármagnskostnað er einnig mikilvægt að halda áfram uppbyggingu í bænum og tryggja hér góð búsetuskilyrði til frambúðar.

Framboðslisti H-listans fyrir sveitarstjórnarkosningar 26. maí nk. er skipaður öflugum og samhentum frambjóðendum sem eru tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að Stykkishólmur haldi áfram að vaxa og dafna. Frá því að ég flutti búferlum hef ég ávallt litið á Stykkishólm sem fyrirmyndar sveitarfélag og hef ég sterka löngun til þess að beita kröftum mínum í þágu Stykkishólmsbæjar og að efla Stykkishólm til framtíðar.

Ég vil að lokum hvetja alla kosningabæra íbúa Stykkishólms til að mæta á kjörstað og nýta rétt sinn til að hafa áhrif á framtíð bæjarins okkar.

Jakob Björgvin Jakobsson
Bæjarstjóraefni H-listans í Stykkishólmi