Hver er staðan?

Haukur Garðarsson, skipar 1. sæti Okkar Stykkishólmur

 

Árið 2012 voru sett lög um viðmið í fjármálum sveitarfélaga sem Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga hefur eftirlit með. Þarna er um nokkur viðmið að ræða en það sem mest er talað um er skuldaviðmið, þ.e. að skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins mega ekki vera umfram 150% af tekjum sveitarfélagsins.

Á síðasta ári voru tekjur sveitarfélagsins 1.481.405.000 kr. og skuldir og skuldbindingar í lok árs 2.137.433.000 kr., frá þeim má draga lífeyrisskuldbindingar lengra en 15 ár fram í tímann sem eru um 93.094.000 kr. og því er skuldaviðmiðið 138%. Rými til lántöku undir 150% skuldaviðmiðum um áramót var því um 178 milljónir.

Á árinu 2018 er búið að taka að láni ríflega 350 milljónir, 175 milljónir til framkvæmda og/eða reksturs og 176,6 milljónir til að greiða lífeyrisframlag til Brúar sem reyndar stendur utan skuldaviðmiða.
Rekstur bæjarfélagsins, skv. veltufjárhlutfalli, stendur undir 30% af afborgunum ársins en 70% þarf þá að endurfjármagna með nýjum lánum og allar framkvæmdir eru því háðar lánsfé.

Fjárfestingar bæjarfélagsins síðustu 10 ára eru um 820 milljónir, þar af 380 milljónir á síðasta ári eða 170 milljónum hærri en upphafleg áætlun bæjarstjórnar gerði ráð fyrir. Það er því ljóst að möguleikar til að fjárfesta á síðasta ári hafa verið fullnýttir. Velta má vöngum yfir því hvernig fjárfestingum hefði verið háttað ef fyrir hefðu legið þarfagreiningar og langtímaáætlun.
Varðandi framkvæmdir næsta kjörtímabils þá er þegar búið að skrifa undir samkomulag um flutning hjúkrunarrýma. Áætlaður kostnaður er um 100 milljónir og er hlutur Ríkisins 492 milljónir sem er góð innspýting í efnahag bæjarins. Þá á eftir að greiða 17% hlutdeild í kostnaði við búnað sem er óþekkt stærð. Í framhaldi af þessu hefur verið nefnt að breyta hjúkrunarrýmum á Skólastíg í leiguíbúðir fyrir aldraða og má reikna með að það kosti um 150 – 200 milljónir. Ef rekstur hjúkrunarrýma verður fluttur frá bænum til annars rekstraraðila í lok þessa kjörtímabils, hverfa tekjur upp á 230 milljónir á verðlagi 2017 úr reikningnum bæjarins. Við það lækkar skuldaviðmið um 340 milljónir en skuldir upp á 186 milljónir sitja eftir. Miðað við þetta kalla þessar aðgerðir því á skuldalækkun upp á um 600 – 650 milljónir til að halda skuldaviðmiðum undir 150%.

Það er ljóst að það er ekki mikið svigrúm í lántöku á næstunni og að það þarf að lækka skuldir áður en hægt er að framkvæma. Ég tel þó sveitarfélagið vel í stakk búið til að standa undir skuldbindingum sínum en ljóst að það þarf að sýna útsjónarsemi og fara af skynsemi í framkvæmdir í framtíðinni.

Haukur Garðarsson
1. sæti Okkar Stykkishólmur