Í tilefni komandi kosninga

Ég heiti Ingveldur Eyþórsdóttir og er fædd og uppalin hér í Stykkishólmi. Foreldrar mín voru Kristrún Óskarsdóttir og Eyþór Ágústsson. Ég á fjögur börn og tvær tengdadætur, tvö barnabörn og það þriðja er væntanlegt í sumar. 

Þegar Fjölbrautarskóli Snæfellinga byrjaði starfsmemi sína opnaðist leið ungmenna til að stunda nám í heimabyggð. Þarna hófst líka nýr kafli í mínu lífi og  ég hóf nám við skólann og lauk stúdentsprófi um leið og yngri sonur minn 2008.

Síðan lá leið mín í HÍ þar sem ég lauk BA prófi í félagsráðgjöf og í framhaldi af því  meistaraprófi  til starfsréttinda. Samhliða því tók ég Diplomanám í opinberri stjórnsýslu. Ég hef um langt  skeið haft áhuga á málefnum sem varðar bæinn okkar og hef ég setið í ýmsum nefndum, lengst af í Fræðslunefnd Sth bæjar og síðar í félagmálanefnd Snæfellinga. Og það var einmitt seta mín í þeirri nefnd sem vakti áhuga á að hefja nám í Félagsráðgjöf. Ég hef núna unnið í fjögur ár hjá Félags og skólaþjónustu Snæfellinga þar sem aðalstarfsvið mitt er barnavernd og málefni fatlaðs fólks. Það kemur því ekki á óvart að þetta eru þeir málaflokkar sem eru mér hvað hugleiknastir. Mörg verkefni eru framundan hér í bæ og má þar nefna húsnæðismál Ásbyrgis. Nú undanfarið hefur verið í undibúningi bygging nýs hús fyrir starfsemina. Miklu skiptir að þar verði vandað til verka og hlustað verði á starfsmenn Ásbyrgis um aðstöðu bæði innan dyra og utan. Einnig er mikilvægt að hugað sé að þjónustu við alla íbúa sveitarfélagsins sem búa við skerta starfsgetu og þeim fundin úrræði sem hentar. Mikil fjölgun hefur verið á barnaverndarmálum á Snæfellsnesi síðastliðin ár. Mikilvægt er að efla samvinnu milli aðila sem koma að málefnum barna og koma á fót öflugum forvörnum. Verkefni þessu tengd eru sífellt  vaxandi á borði sveitarfélaganna og því mikilvægt að sveitarstjórnarmenn veiti þeim aukna athygli. Það er stefna okkar sem að L- listanum stöndum  að vinna þannig að þessum málefnum  að samfélag okkar geti talist í farabroddi.

Ingveldur Eyþórsdóttir, 4. sæti L- listans