Loforð og fögur fyrirheit

Ragnheiður Harpa Sveinsdóttir, 8. sæti, Okkar Stykkishólmur

Eftir að hafa komið opinberlega fram, sem einstaklingur á lista til kosninga, þá hef ég fengið þá spurningu (sem eðlilegt er), hverju ætlið þið að lofa? Þessi spurning leiðir af sér aðrar spurningar, t.d. hvað er loforð? Ég hef mikið velt þessu fyrir mér. Við í Okkar Stykkishólmur höfum sett okkur nokkur grunngildi sem við ætlum að vinna eftir.

Gildin eru:
● aukið gagnsæi
● heiðarleiki
● traust og fagmennska
● íbúaþátttaka
● sjálfbærni og langtíma sjónarmið

Eru þetta loforð? Er þetta mælanlegt eða mat hvers og eins? Er alltaf hægt að mæla hvort loforð hafi verið efnt og er hægt að komast hjá því að efna loforð? Hvað gerist ef við svíkjum loforð eða svíkja stjórnmálamenn nokkurn tíma loforð? Hvernig myndir þú útskýra loforð fyrir barninu þínu?
Það sem Okkar Stykkishólmur ætlar að gera er að breyta grunnþáttum í rekstri bæjarins og vinnubrögðum. Við ætlum að vera umboðsmenn ykkar en ekki hópur sem tekur einhliða ákvarðanir um hvernig fjármunum ykkar er ráðstafað. Að setja fram atriði á lista sem talin eru vinsæl meðal kjósenda en vita ekki alveg hvort eða hvernig hægt sé að framkvæma þau, er það loforð? Oft eru upptalningar loforða hjá flokkum fyrir kosningar aðeins fögur fyrirheit sem erfitt er að efna. Á þá að telja það upp sem loforð? Á frekar að láta vita hvernig skal stefnt að því loforði í framtíðinni? Er hægt að lofa langt fram í tímann í sveitarstjórnarmálum? Þessum spurningum er erfitt að svara. Við höfum því ákveðið að lofa ekki neinum framkvæmdum eða gera neinn framkvæmdalista yfir verkefnin framundan þó við munum lista upp einhverjum áherslumálum. Hvernig eigum við þá að auglýsa okkur eða að fá fólk til að kjósa okkur? Hvernig svörum við þá þessari algengu spurningu, hverju lofið þið?

Við ætlum að vinna fyrir fólkið í bænum, í samræmi við þau gildi sem við höfum sett okkur, eftir þarfagreiningu og þeim fjármunum sem verða til umráða. Við ætlum að hugsa um hag bæjarbúa og þær eignir sem við eigum. Það eru ýmis verkefni sem þarf að fara í og munum við vinna þau í samræmi við niðurstöður þarfagreiningar. Við ætlum að nýta þá þjónustu og þann mannauð sem bærinn á. Við viljum fá íbúa til þess að taka þátt og vera með í stórum ákvörðunartökum. Við getum þó lofað því að við munum vinna fyrir fólkið í bænum, unga sem aldna, óháð stétt, stöðu eða flokkspólitík, og allt fólk sem býr hér í Hólminum okkar Stykkishólmi.

Ragnheiður Harpa Sveinsdóttir, 8. sæti, Okkar Stykkishólmur