Notaðu kosningaréttinn

Laugardaginn 26. maí leggjum við stolt, okkar verk, stefnu og lista í ykkar mat.
Við Hólmarar búum við það lúxusvandamál að þurfa að velja á milli þriggja framboða sem öll eru skipuð úrvals fólki sem er tilbúið til að leggja sitt af mörkum fyrir samfélagið okkar. Hlutverk bæjarstjórnarfólks er fyrst og fremst að finna leiðir til að þjónusta íbúana sem best með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni ásamt því að vera jákvæð, úrræðagóð og hvetjandi. Bæjarfulltrúar þurfa því að meta stöðuna, þarfir og möguleika jöfnum höndum. Í Stykkishólmi er gott að búa og gott fólk að finna, hér ætlum við þó ekki að fara frekar í þá frasana. Við í L-listanum erum að bjóða fram til bæjarstjórnar í fjórða sinn. Okkar listi samanstendur af 14 einstaklingum sem allir koma úr mismunandi áttum atvinnulífsins. Sum höfum við mikla reynslu á vettvangi bæjarmálanna en önnur koma fersk inn, öll höfum við þó bæði áhuga og hugmyndir. Í þrjú kjörtímabil höfum við unnið ötullega og af ábyrgð að málefnum sveitarfélagsins og erum stolt af okkar verkum. Sérstaklega erum við ánægð með kjörtímabilið 2010-2014 en það tímabil vorum við í meirihluta. Þá náðum við með ábyrgri fjárhagsstjórn meðal annars að koma skuldahlutfalli bæjarins úr 190% í 140%.
Okkar stefna er skýr og höfum við aldrei stundað það að vera með óábyrg yfirboð og fiskað þannig atkvæði í gruggugu vatni. Ljóst er að stórar áskoranir eru framundan. Meta þarf stöðuna, fara yfir reksturinn og forgangsraða verkefnunum. Við teljum það vera mjög mikilvægt að bæjarstjórn vinni saman sem ein heild, að borin sé virðing fyrir mismunandi skoðunum og málin rædd á jafnræðisgrunni. Upplýst umræða og gott samband við bæjarbúa er lykilatriði til að árangur náist. Okkar bær með okkar fólk á mikla möguleika og bjarta framtíð ef okkur lánast að vinna, tala og standa saman. Við setjum fólk í fyrirrúm, alla Hólmara.
Endilega komdu og líttu við á kosningaskrifstofunni okkar í gamla Apótekinu, við tökum vel á móti þér.
Kæru Hólmarar. Við frambjóðendur L-listans óskum eftir þínum stuðningi til að vinna áfram að uppbyggingu okkar góða samfélags, okkur öllum til hagsbóta. Notaðu kosningaréttinn.

Frambjóðendur L-listans, lista allra Hólmara