Miðvikudagur , 23. janúar 2019

Okkar Stykkishólmur – Hver er Árni Ásgeirsson?

Árni Ásgeirsson, skipar 4. sæti Okkar Stykkishólmur

Ég, Árni Ásgeirsson, er eins og nafnið gefur til kynna sonur Ásgeirs og móður minnar, hennar Katrínar. Það kemur ósjaldan fyrir að ég er kallaður Ásgeir og leiðrétti ég sjaldan þann misskilning en kannski væri best að þið sem þetta lesið kallið mig bara Árna, alla vega svona um og kringum kosningar.

Ég er fæddur og uppalinn í Stykkishólmi og eins og margir hér í bæ á ég ættir að rekja til Breiðafjarðareyja. Þar liggja mínar rætur og má segja að ég eigi mínar bestu stundir úti í eyju. Ég velti því oft fyrir mér hvernig það var á árum áður að eiga þar heima. Þannig má segja að áhugasvið mitt og hennar ömmu minnar, Unnar Láru, tengist en hún var alin upp í Elliðaey og hlusta ég því oft á sögur hennar um eyjalífið. Á vorin lifnar yfir eyjunum líkt og það gerði áður fyrr og mun vonandi gera um ókomna tíð en til þess verðum við að nýta auðlindir fjarðarins hóflega og af virðingu.

Að eiga fjölskyldu tel ég vera forréttindi og við Anna Margrét eigum tvö yndisleg börn saman, Davíð Ágúst 5 ára og Katrínu Láru 3 ára. Von er á því þriðja um mitt sumar.

Eftir að hafa lokið grunnnámi í líffræði hóf ég að vinna við Rannsóknasetur Háskóla Íslands hér í bæ en hef meðfram því starfi gert ýmislegt annað. Setti á fót pítsustaðinn Stykkið ásamt félaga mínum, hef þjálfað yngri flokka Snæfells í þrjá vetur og núna eftir áramót hef ég kennt einn áfanga við Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Sumarstörf mín með skóla voru síðan grásleppuveiðar og skak með pabba en það er mikil lífsreynsla að vinna á sjó og þroskandi.

Eins og ég hef áður sagt tengjast helstu áhugamál mín okkar nærumhverfi, sjónum og eyjunum. Þar standa upp úr ferðir með fjölskyldunni út í eyjar og að kynna börnin mínum fyrir þessu fallega umhverfi.

Ég hef ekki lifað langa ævi en á þeim árum, sem nú hafa teygt sig yfir þrjátíu, hefur lífið kennt mér að mikilvægt er að veita sjálfum sér áskoranir og stíga út fyrir þægindahringinn öðru hverju en vera jafnframt heiðarlegur og skynsamur. Ég tel einnig mikilvægt að hlusta og læra af eldri sem og yngri kynslóðum.

Úr því að ég minnist á hana ömmu mína í þessum pistli get ég ekki sleppt því að nefna mál sem mér er einkar hugleikið og ég heyri á spjalli mínu við bæjarbúa að ég er ekki einn um það. Það eru málefni dvalarheimilisins. Þar er þörf á úrlausnum og ég tel skynsamlegast að þær séu fundnar í sameiningu og í góðu samstarfi við heimilisfólk og starfsfólk dvalarheimilisins. Samvinna er alltaf heillavænlegust.

Ástæða þess að ég býð mig fram í vor er að ég tel mig geta orðið bænum og bæjarbúum að liði. Með heiðarleika og virðingu mun ég starfa fyrir alla bæjarbúa, hlusta á skoðanir fólks og hafa samstarf að leiðarljósi til að bærinn okkar njóti góðs af.

Árni Ásgeirsson, skipar 4. sæti Okkar Stykkishólmur