Okkar Stykkishólmur – Hver er Erla?

Erla Friðriksdóttir
2. sæti, Okkar Stykkishólmur

Sumir urðu kannski hissa á að sjá nafn mitt á framboðslista Okkar Stykkishólms, og sjálf bjóst ég ekki við að fara aftur út í sveitarstjórnarpólítík. Hins vegar er hjartað mitt í Stykkishólmi, sem endurspeglast í því að ein af skemmtilegri bernskuminningum mínum er þegar ég flutti átta ára gömul í Hólminn. Í mínum huga var sól og blíða en mér var síðar bent á að það var víst grenjandi rigning þennan dag. Því er erfitt annað en að vilja leggja hönd á plóg á þágu þessa fallega bæjar og flotta samfélags. Það er einnig alltaf sól hjá sambýlismanninum mínum, honum Rabba. Við eigum samtals sex börn en á heimilinu eru núna tvö, þau Birta og Arnar. Við eigum líka frábærar hænur,
þær Frikku og Dísu. Rabbi er í miklu uppáhaldi hjá þeim. Þær ráða sér ekki fyrir kæti þegar þær heyra í bílnum hans, gagga eins og enginn sé morgundagurinn og koma hlaupandi á móti honum.

Eftir góð uppvaxtarár hér í Hólminum lá leið mín í Verzló og svo í viðskiptadeild HÍ. Að háskólanámi loknu hef ég starfað við margt ótrúlega skemmtilegt. Má þar helst nefna að ég var framkvæmdastjóri Kringlunnar og markaðsstjóri Smáralindar. Þessar verslunarmiðstöðvar eru hvor um sig eins og heilt bæjarfélag, nota álíka mikla orku og er starfsmannafjöldinn á við alla þá sem starfa hér í Hólminum. Leiðin lá svo aftur heim þegar mér bauðst að starfa sem bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar. Í fimm ár var ég bæjarstjóri og bæjarfulltrúi eitt kjörtímabil. Á háskólaárunum stofnaði ég ásamt fleirum fyrirtækið Íslenskan æðardún. Samhliða öðrum störfum sinnti ég því, en hef nú snúið mér alfarið að rekstri þess. Í gegnum tíðina hef ég setið í ýmsum stjórnum og nefndum. Núna er ég í stjórn Æðarræktarfélagsins, Japan-íslenska viðskiptafélagsins og er formaður Breiðafjarðarnefndar.

Ég hef upplifað það mjög sterkt á yfirstandandi kjörtímabili hvað mér þykir vænt um bæinn minn. Ég tel gífurlega mikilvægt að bæjarfulltrúar beri tilhlýðilega virðingu fyrir íbúum og leggi sig fram um að leita álits samfélagsins á því hvað sé brýnast fyrir íbúana, börnin, ömmurnar og afana, þannig að fjölskyldurnar geti blómstrað sem best í bænum. Þegar ég fann hversu heitt ég vil aðeins það besta fyrir samfélagið og finnst engan veginn rétt að farið, þá er ekkert annað í stöðunni en að bjóða fram krafta sína í þeirri trú að hægt sé að gera betur.

Að starfa með öllu þessu flotta fólki í Okkar Stykkishólmi hefur verið frábært. Við munum starfa áfram af heilindum með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi. Ég hlakka til áframhaldandi samstarfs og allra þeirra verkefna sem fram undan eru.

Erla Friðriksdóttir
2. sæti, Okkar Stykkishólmur