Okkar Stykkishólmur – Stykkishólmur okkar allra

Á laugardaginn fara fram kosningar til bæjarstjórnar. Kosningarnar snúast fyrst og fremst um það hverjum íbúar treysta best fyrir hagsmunum okkar Hólmara, að þjónusta íbúana, viðhafa heiðarleg vinnubrögð og ábyrga fjármálastjórn.

Þegar fyrir lá að Okkar Stykkishólmur byði fram lista einsettum við okkur að hafa gleðina að leiðarljósi, leita eftir skoðunum íbúa og bera virðingu fyrir stefnumálum annarra framboða. Áhersla okkar er að breyta vinnubrögðum og stunda vandaða stjórnsýslu. Von um völd er ekki það sem drífur okkur áfram. Okkar sýn er sú að kjörnir fulltrúar séu umboðshafar kjósenda og viljum við sýna í verki hvernig lýðræðisleg þátttaka íbúa getur haft áhrif. Það er einlæg von okkar að á næsta kjörtímabili geti allir bæjarfulltrúar sameinast um að vinna einhuga og í sameiningu að málefnum bæjarins.

Áhugi íbúa á málefnum bæjarins hefur alltaf verið mikill og þátttaka í sveitarstjórnarkosningum verið með mesta móti landinu. Margt gott fólk hefur boðið fram krafta sína í þágu bæjarins og ljóst að öflug bæjarstjórn mun taka við keflinu. Nú hafa þeir íbúar sem kallað hafa eftir breytingum á vinnubrögðum í stjórnsýslunni tækifæri til að kjósa breytingar.

Við hvetjum alla til að nýta sér rétt sinn og mæta á kjörstað laugardaginn 26. maí.

Haukur Garðarsson
Erla Friðriksdóttir
Theódóra Matthíasdóttir
Árni Ásgeirsson