Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Þörf grein

Hrafnhildur Hallvarðsdóttir, 1. sæti H-listans

Senn líður að kosningum en í dag 17. maí eru aðeins níu dagar þangað til kjördagur 26. maí rennur upp. Tíminn undanfarnar vikur frá því að ég þáði boð um að sitja í oddvitasæti H-listans fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar hefur flogið áfram. Þessar vikur hafa verið annasamar en mjög skemmtilegar því það hefur verið einstaklega ánægjulegt að vinna með þessum 13 einstaklingum sem skipa H-listann með mér og kynnast nýjum hliðum á þessum frábæra hópi. Það hefur einnig verið mjög gaman að vinna að stefnuskrá listans og hlusta á hugmyndir fólks um hvernig það vill sjá bæinn sinn á næstu 4-8 árum.

Við héldum málefnafund í Lionshúsinu 21. apríl og fengum til okkar fjölda bæjarbúa sem deildu með okkur hugmyndum sínum um þau mál sem þeim fannst hvað brýnust á næsta kjörtímabili. Þó að við höfum ekki talað um þennan málefnafund sem þarfagreiningu þá var hann einmitt dæmi um slíkt. Hugtakið „þarfagreining“ hefur heyrst töluvert undanfarið og er látið að því liggja að það sé nýtt í umræðunni. Raunin er þó sú að þarfagreining hefur verið unnin árum saman hjá Stykkishólmsbæ þó að hún hafi ekki verið unnin af sérfræðingum að sunnan.

Taka má dæmi af vinnu við undirbúning fjárhagsáætlunar ár hvert þegar bæjarráð hittir á fundi viðkomandi stjórnanda stofnunar, ásamt formanni þeirrar nefndar sem stofnunin heyrir undir. Viðkomandi stofnun er þá búin að vinna ákveðna þarfagreiningu í samstarfi við starfsfólkið, sem hefur bestu tilfinninguna fyrir því hvað þarf hverju sinni og hvernig þarf að forgangsraða. Þarfagreiningarvinna á ekki við á öllum stofnunum en hefur verið notuð þar sem við á. Stjórnendur stofnana funda svo með bæjarstjóra, byggingarfulltrúa og bæjarráði þar sem farið er yfir þarfir, áherslur og framkvæmdir næstu missera og þau atriði sett inn á framkvæmdaáætlun.

Á þessum vinnufundum með bæjarráði er farið yfir ráðstöfun fjármuna á líðandi ári og hvernig ráðstöfun fjármuna þarf að skiptast á undirflokka á næsta ári, allt í takt við þarfir viðkomandi stofnunar hverju sinni. Unnið er með lista yfir atriði, sem er svo forgangsraðað í samráði við viðkomandi stofnun.

Það er fólkið sem vinnur störfin sem hefur mestu og bestu tilfinninguna fyrir því hvar vantar upp á í daglegu starfi, hvar þarf að bæta í o.s.frv. Það má ekki vanmeta þekkinguna sem býr í mannauðnum og reynslunni sem starfsfólk bæjarins býr yfir.

Við í H-listanum höfum skoðað þann fjölda nefnda sem er skipaður af bæjarstjórn Stykkishólms í upphafi hvers kjörtímabils. Við höfum verið sammála um að rétt sé að fækka þessum nefndum og gera þar með stjórnsýsluna skilvirkari. Í framhaldi af þessari vinnu höfum við fengið fólk með okkur í hópinn sem er tilbúið að vera formannsefni þeirra nefnda sem við viljum sjá starfræktar á komandi kjörtímabili. Lánið hefur leikið við okkur því að við höfum fengið gott fólk til verksins. Á síðu H-listans, https://hlistinn.is/ kynnum við þetta frábæra fólk en við fögnum því að hafa fengið það til að starfa með H-lista.

Á heimsíðu listans má sjá stefnumál okkar og á næstunni verður stefnuskráin borin í hús. Við munum opna kosningaskrifstofu í Freyjulundi 18. maí kl. 17:00 og bjóðum alla bæjarbúa velkomna þangað til að ræða stefnumálin fyrir komandi kjörtímabil og taka þar með þátt í þarfagreiningu fyrir næstu árin með okkur.

Að lokum vil ég minna bæjarbúa á að nýta kosningarétt sinn laugardaginn 26. maí. Að vera kjörgengur og hafa möguleika til að kjósa er dýrmætur réttur og lýðræðið er hornsteinn hvers samfélags.

Hrafnhildur Hallvarðsdóttir, 1. sæti H-listans