Kynjahlutfall í Stykkishólmi jafnt

Ólafur Sveinsson og Vífill Karlsson, fulltrúar atvinnuráðgjafar SSV, mættu á fund Atvinnumálanefndar í Stykkishólmi og fóru yfir nokkur vel valin mál. Í erindi þeirra kom m.a. fram að aldursdreifing í Stykkishólmi er mjög jákvæð og fjölgar íbúum í yngri kantinum. Eins og annarstaðar á landinu hækkar meðalaldurinn hér í bæ.

Stykkishólmsbær og Reykjavík eru einu sveitarfélögin þar sem íbúar skiptast jafnt í karla og konur.

Uppganginn í bænum rekja þeir til ferðaþjónustunnar og segja margt benda til þess að mikil fjölgun verði í þeim bransa á Snæfellsnesi á komandi misserum. Þeir ráðleggja því að vekja enn meiri athygli á svæðinu og lengja dvalartíma.

Uppganginum fylgir hærra verð íbúða og er Stykkishólmur í fjórða sæti um hæsta fermetraverð á landinu utan Reykjavíkur. Efstu þrjú sætin verma Akureyri, Selfoss og Akranes.