Langþráðum áfanga náð

Stúkan við íþróttavöll Stykkishólms hefur nú verið stóluð upp með rauðum sætum. Það var vaskur hópur sjálfboðaliða sem boltaði niður síðustu sætin s.l. föstudag þegar blaðamann bar að garði og var að vonum ánægður með útkomuna. Stúkan fær mikla andlitslyftingu við þessa framkvæmd en það var mannvirkjasjóður KSÍ og velviljaðir einstaklingar og fyrirtæki sem fjármögnuðu sætakaupin og lögðu hönd á plóg við þetta verkefni og vill knattspyrnudeildin koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem lögðu verkefninu lið.

Skv. heimildum blaðamanns kom KSÍ hingað vestur í síðustu viku og lýsti ánægju sinni með framtakið. Til stendur að sækja um í sjóð KSÍ næst til að koma upp varamannastúku og leikklukku á vellinum.  Það var hugur í fólkinu að loknu góðu verki og margar hugmyndir uppi um framhaldið hvort til dæmis hægt væri að laga hlaupabrautina og byggja létt skýli yfir stúkuna.

Fyrsti leikur á stólaðri stúkunni verður hreinn úrslitaleikur þar sem SnæfellUDN- tekur á móti Berserkjum úr Víkingshverfinu í Reykjavík. Snæfell er nú í 2.sæti 4. deildar karla í Íslandsmótinu. Sætin verða tekin í notkun við hátíðlega athöfn fyrir leikinn kl.18.30 og næsta víst að leikurinn verður hörkuspennandi. Áfram Snæfell!

am/frettir@snaefellingar.is