Leikjanámskeið Víkings/Reynis

Árlegu leikjanámskeiði Víkings/Reynis lauk með grillveislu þar sem boðið var upp á grillaðar pylsur og fisk ásamt svala. Leikjanámskeiðið var með svipuðu sniði og undanfarin ár farið var í fossaferð, fyrirtækjaheimsóknir, veiðiferð, sund, fjöruferð, ratleik, sveitaferð, á hestbak og auðvitað lokahófið og grillið. Hafa leikjanámskeiðin verið vinsæl enda vandað til þeirra og hafa krakkarnir haft mjög gaman að. Veg og vanda að þessum leikjanámskeiðum hefur Ejub Purisevic haft en hann hefur ásamt ungmennafélaginu staðið fyrir leikjanámskeiðum síðan árið 2003 og er þetta því í 18. skiptið sem hann gerir það. Hafa námskeiðin alltaf verið í júní og staðið yfir í tvær vikur. Á mánudaginn í síðustu viku hófst svo knattspyrnuskóli Víkings og mun hann standa yfir út þessa viku. Á námskeiðinu munu leikmenn meistaraflokks, þjálfarar og góðir gestir ásamt markmönnum karla og kvennaliðsins sjá um að þjálfa og kenna krökkunum. Meðfylgjandi mynd var tekin þegar þátttakendur í leikjnámskeiðinu fengu að fara á bak undir öruggri leiðsögn hestamanna.

Jökull