Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Leikvellir í Stykkishólmi

Nokkur umræða hefur skapast á samfélagsmiðlum vegna ástands leikvalla hér í bæ. Gagnrýnir fólk þar ástand vallanna sem þykir slæmt að sjá. Ekki er átt við leikvellina við Grunnskólann eða Leikskólann.

Fyrir tveimur árum var hópurinn Rólóvinafélagið stofnaður. Þar voru samankomnir foreldrar og aðrir sem höfðu áhyggjur af ástandi leikvallanna. Í samstarfi við bæjaryfirvöld lagði hópurinn til úrbætur á völlunum. Sumir leikvellir voru fjarlægðir og aðrir fengu andlitslyftingu. Nokkrum ábendingum hópsins var sinnt og hafa ýmsar viðgerðir farið fram og ónýt leiktæki hafa verið fjarlægð. Gert er ráð fyrir að minnka völlinn við Áskinn.

Þegar hafa verið keypt nokkur ný leiktæki sem bíða uppsetningar. Í svari bæjarstjóra við fyrirspurn Stykkishólms-Póstsins segir að vandinn liggi í því að iðnaðarmenn vanti til þess að sjá um verkið en það sé á dagskrá í ár.

Í pistli bæjarstjóra í ársbyrjun stendur: „Í samstarfi við Rólóvinafélagið hefur verið hafið viðhald og endurnýjun leiktækja. Gert er ráð fyrir því í fjárhagsáætlun næsta árs að gera verulega bragarbót á þeim leikvöllum sem eru til staðar í misgóðu ástandi.”

2 milljónir kr. eru settar undir liðinn Endurbætur á leikvöllum, ný tæki og minnkun einstakra leikvallarsvæða í fjárhagsáætlun.

Nú er svo komið að leikskólinn fer í sumarfrí í lok vikunnar og má því gera ráð fyrir að meiri umferð verði á leikvöllunum. Eins er leikjanámskeiði lokið.

Lagfæringar sem gerðar hafa verið við grindverk

Þó að ásýndin sé ljót virka mörg tæki og skemmta börnin sér eflaust vel í þeim. Það geta því alltaf leynst flísar og brak hjá timbri sem ekki hefur verið viðhaldið og því er ekki að leyna að vellirnir mega muna fífil sinn fegurri.

 

Fréttin hefur verið uppfærð frá þeirri sem birtist í Stykkishólms-Póstinum.