Leki kom að Sæljósi GK

Á síðasta fimmtudag barst Landhelgisgæslunni beiðni um aðstoð en leki hafði komið að Sæljósi GK um tvær sjómílur norðvestan við Rif. Þyrlan var send á loft en snúið við stuttu seinna. Nærstaddir bátar voru beðnir að sigla að bátnum. Var báturinn tekinn í tog af Saxhamri SH og síðar Björgunarbátnum Björg eftir að hann slitnaði aftanúr Saxhamri. Var ákveðið að draga bátinn til Rifshafnar og dæla úr honum þar. Var báturinn töluvert siginn en mikill sjór var kominn í bátinn er þangað var komið, var dælu úr Björginni komið um borð til að dæla úr honum í fyrstu svo stuttu seinna bættist við dæla frá slökkviliði Snæfellsbæjar. Einn maður var um borð og sakaði hann ekki, var hann tekinn um borð í Björgina. Þess má geta að frá því að útkall barst var Björgin komin af stað sex mínútur síðar.

Birtist fyrst í Bæjarblaðinu Jökli