Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Ljón á veginum

Árleg vegahreinsun Lionsklúbbs Stykkishólms fór fram miðvikudaginn 31. maí sl. Vaskir menn vopnaðir ruslapokum mættu strax eftir vinnu og þefuðu uppi rusl í vegköntum á norðan- og sunnanverðu Snæfellsnesi.

Gengið var meðfram þjóðveginum frá Haffjarðará til Stykkishólms, alls 56 km, frá Vegamótum vestur að Vigdísarlundi, alls 5,5, km og frá Vatnaleið að Bjarnarhafnarafleggjara, alls 2,5 km. Samtals voru þetta 64 kílómetrar en gengið var beggja vegna vegar og reiknast þá að klúbburinn hafi gengið 128 km.

Gangan tók eina kvöldstund, enda svona vegalengd ekki lengi gengin af mörgum. Sérstaklega í jafn fallegu veðri.

Talsvert var af rusli en reyndir menn voru sammála um það að minna hafi þó verið um það en áður. Helst var að finna pappamál, sígarettupakka, dósir og plastumbúðir. Einnig plaststykki af bílum. Annað fágætara sem kom upp úr krafsinu var snjallsími, linsulok, bensínstöðvarskilti og belti.