Ljósnetið kemur með vorinu

Íbúar Stykkishólms hafa e.t.v. orðið varir við það að ekki eru allar nettengingar í bænum jafnhraðar. Nú er það svo að heimili í 1.000m fjarlægð frá símstöð eiga kost á að nýta sér ljósnetið sem býður upp á talsvert meiri flutningsgetu en hefðbundin ADSL tenging.

Samkvæmt Mílu, sem á og rekur koparkerfi, ljósleiðara- og örbylgjukerfi sem ná til heimila í landinu, verður Stykkishólmur ljósnetsvæddur strax í vor. Það er á áætlun að leggja ljósleiðara í götuskápa, í framhaldinu geta heimili því nýtt sér ljósnetið. Með þeirri breytingu eykst flutningsgeta bæði til og frá, þ.e. niðurhal og upphal.

Lagning leiðarans í götuskápana ætti ekki að taka langan tíma og er tiltölulega auðveld í framkvæmd. Að sögn Mílu er klárlega gert ráð fyrir ljósleiðaratengingu inn á heimili í Stykkishólmi í framtíðinni en ekki er fyrirséð hvenær það verður nákvæmlega. Sú leið býður upp á enn meiri flutningsgetu gagna sem er kostur á tímum þegar internetið er svo stór hluti af daglegu lífi hvers manns.