Lukkulegar með Landsmótið

This slideshow requires JavaScript.

Haldið var úrtökumót hjá hestamannafélaginu Snæfellingi 16. júní s.l. hér í Stykkishólmi þar sem keppt var um þátttökurétt á Landsmóti sem fram fer um þessar mundir í Víðidalnum í Reykjavík. Snæfellingur má senda þrjá keppendur í flokki barna, unglinga og ungmenna og var keppt í þeim flokkum á úrtökumótinu. Barna- og unglingastarf hefur vaxið mjög á svæðinu og á bygging reiðskemma hér á Snæfellsnesi líklega stóran þátt í því. Níu ungir knapar öðluðust þátttökurétt á Landsmótinu frá Snæfellingi og fóru á Landsmótið. Það voru þau: Valdís María Eggertsdóttir, Signý Sævarsdóttir frá Stykkishólmi og Gísli Sigurbjörnsson frá Minni-Borg í barnaflokki. Í ungmennaflokki: Fanney Gunnarsdóttir; Brimilsvöllum Ólafsvík, Borghildur Gunnarsdóttir, Hrísdal og Guðný Margrét Siguroddsdóttir, Hrísdal. Keppendur í unglingaflokki voru einnig þrír, Brynja Gná Heiðarsdóttir, Grundarfirði, Hafdís Lóa Sigurbjörnsdóttir Minni-Borg og Fjóla Rún Sölvadóttir, Ólafsvík. Þær Valdís og Signý litu við á ritstjórn Stykkishólms-Póstsins í spjall í vikunni: Valdís er 12 ára og Signý 11 ára og hafa haft áhuga á hestum síðan þær voru smábörn og hafa verið viðloðandi hesthúsin frá því þær muna eftir sér. Báðar hafa þær keppt á mótum áður en fóru nú í fyrsta sinn á Landsmót. Þær kepptu á tveimur hestum á úrtökumótinu hér í Hólminum og komst Signý áfram á Hamri frá Hrappsstöðum og Valdís á hestinum Spurningu frá Stykkishólmi. Til að komast áfram þurfti að sýna færni í stökki, tölti og feti. 78 keppendur tóku þátt í barnaflokki á Landsmótinu og komust 30 áfram í milliriðil. Þrátt fyrir að komast ekki þangað að þessu sinni þá segja þær stöllur þetta hafi verið mikla reynslu sem þær muni byggja á og nú þurfi bara að halda áfram að æfa fyrir næstu mót, því þær stefna á Landsmótið 2020. Landsmótið stendur yfir fram á sunnudag.

Viðtalið við þær stöllur er hægt að hlusta á hér!