Margir sundgarpar

Árið 2016 komu 34.348 gestir í sundlaug Stykkishólms. Var það 3% aukning frá árinu áður.

Fjölgun gesta í sundlaug Stykkishólms hefur ekki tekið miklum breytingum undanfarin ár þrátt fyrir stöðuga fjölgun ferðamanna í bænum. Skýringin er sú að vísa þarf gestum frá á álagstímum vegna þess að klefarnir rúma ekki fjöldann sem sækir í sund. „Þar stendur hnífurinn í kúnni” segir Vignir Sveinsson, forstöðumaður. Hann segir það vera bölvanlegt að þurfa að vísa fólki frá þegar mest er að gera því sundlaugin sjálf þoli alveg fleiri gesti í einu. Yfir sumartímann fyllist allt af ferðamönnum sem margir hverjir verða ósáttir með að þurfa frá að hverfa. Starfsmenn sundlaugarinnar kvíði sumrinu þar sem mikil fjölgun ferðamanna er í vændum.

Hugmyndir um útiklefa hafa komið upp og einnig hvort hægt sé að nota klefa niðri við íþróttasalinn yfir sumarið. Þá þyrfti að útbúa inngang þaðan upp með portinu inn í sundlaugargarðinn sem Vignir telur vera einfalda framkvæmd.

Kostnaðaráætlun fyrir dúkalögn og viðhaldi á sundlauginni hefur verið lögð fram á bæjarstjórnarfundi og var henni vísað til bæjarráðs til frekari úrvinnslu.