Miðbærinn prentaður út

Mikið hefur verið í umræðunni s.l. daga miðbæjarskipulagið á Selfossi og var íbúakosning um það s.l. helgi þar sem þátttaka var góð og íbúar samþykktu fyrirhugað deiliskipulag. Skipulagið gerir ráð fyrir nýjum miðbæ byggðum í gömlum byggingarstíl. Sitt sýnist hverjum um þær hugmyndir en það þekkist víða að þegar verið er að útlista hugmyndir fyrir fólki þá er skilningur þess mjög mismunandi. Oft þarf að grípa til að gera líkön eða prufuútgáfur og vinna þannig að endanlegri hugmynd áður en hún fer í framkvæmd. Þannig var einmitt gert fyrir þetta stóra verkefni að gert var líkan. Þá var leitað hingað í Hólminn eftir kunnáttu og tækjabúnaði þar sem Sigurbjartur Loftsson (Baddi) tók að sér verkefnið að prenta út í þrívíddarprentara öll húsin á teikningunum. Blaðamaður Stykkishólms-Póstsins skrapp í heimsókn til Badda og kom þá í ljós að prentarinn sem hann festi kaup á í júní hefur verið í stöðugri notkun og nú stefnir hann á frekari tækjakaup til að bæta þjónustuna. Viðbrögðin við verkum hans inn í þetta stóra verkefni voru mjög góð og gerði það að verkum að fólk átti auðveldara með að gera sér grein fyrir hvernig það myndi enda.

Baddi segir mikla framtíð í þrívíddarprentun og það sé gríðarlega hröð þróun í þeim geira. Hinsvegar þurfi að oftast að undirbúa verkin fyrir prentun svo þau geri sig t.d. með burðarbitum í prentuninni en ef fólk er fært að teikna í þrívídd í tölvu þá sé lágmarskostnaður við það að prenta gripinn út.

Nýjasta verkefnið er útfærsla fyrir Náttúrfræðistofnun á margfald stækkuðum gæsadún og æðardún þar sem reynt er að bera saman eiginleika þeirra og samloðunarhæfni. Möguleikarnir eru endalausir. 

am/frettir@snaefellingar.is