Mikið tónlistarlíf á Snæfellsnesi

Unnendur lifandi tónlistar höfðu í nógu að snúast liðna helgi og verða ekki sviknir um komandi helgi í Stykkishólmi.

Vel var mætt á tónleika í Stykkishólmskirkju sl. laugardag en þar stigu á stökk Ágúst Ólafsson, Sesselja Kristjánsdóttir og Eva Þyrí Hilmarsdóttir. Þau fluttu íslensk sönglög og aríur. Ferðamenn sem áttu leið hjá höfðu á orði að það væri stórfenglegt að verða vitni að tónleikum í salnum.

Sólarhring síðar fagnaði hljómsveitin Þrír útgáfu plötu sinnar „Allt er á meðan Þrír er” við Sjávarpakkhúsið. Veður var gott svo hljómsveitin spilaði utandyra og myndaðist skemmtileg stemning. Fólk á öllum aldri hlýddi á, börn hlupu um og dönsuðu og fullorðnir svöluðu þorstanum í sólinni. Ferðamenn tóku þetta svo alltsaman upp á símana sína.

Fimmtudaginn 6. júlí verða tvennir tónleikar á sama tíma. Annars vegar verða tónleikar í Stykkishólmskirkju kl. 20. Þar verða fluttar djassperlur Monicu Zetterlund. Á Vatnasafninu verður hægt að hlýða á flamenco og klassíska tónlist með gítarleikaranum Reyni Haukssyni.

Fleiri tónleikar eru framundan í náinni framtíð og ekki má gleyma komu Kítón í Hólminn. Kítón, sem er félag kvenna í tónlist, mætir hingað í haust með einskonar vinnubúðir og munu þær koma fram með frumsamið efni. Þær munu einnig vinna með nemendum í Tónlistarskólanum í Stykkishólmi.

Frystiklefinn í Rifi býður einnig upp á mikið úrval tónleika í sumar með mörgum af okkar færustu hljómsveitum. Jónas Sig. og Ritvélar framtíðarinnar spiluðu á Ólafsvíkurvöku og Valdimar og Örn Eldjárn miðvikudaginn 5. júlí.

Af nógu er að taka í nærumhverfinu. Lesendur eru hvattir til að fylgjast með viðburðum á Facebook síðum Listvinafélags Stykkishólmskirkju og Frystiklefans svo ekkert fari framhjá þeim.