Myndarlegasta hús

Það dynja hamarshöggin á lóðinni við Skólastíg 2, þar sem áður stóð Hjaltalínshús. Byggingarframkvæmdir standa þar yfir en húsið er risið og er tígulegt á gatnamótum Hafnargötu og Skólastígs. Baldur Þorleifsson og félagar hjá smíðafyrirtækinu Narfeyri eru við smíðarnar en byggingarstjóri hússins er ÞB Borg. Hjörleifur Sigurþórsson teiknaði húsið fyrir Ellert Kristinsson og Jóhönnu Bjarnadóttir sem hyggjast flytja af Sundabakkanum inn í nýja húsið n.k. vor. Húsið er byggt úr forsteyptum einingum, einangrað utan frá en viðarklætt að utan og innan. Fyrirmynd hússins stendur í Hafnarfirði og er elsta hús Hafnarfjarðar byggt um 1807 fyrir Bjarna Sívertsen athafnamann sem einnig er nefndur faðir Hafnarfjarðar. Sterk einkenni hússins er þetta síða þak sem blasir við. Innandyra eru milliveggir úr timbri og leynir efri hæðin sérstaklega á sér auk þess sem útsýni yfir höfnina er frábært. Gólfflötur hússins er 94 fm. Í stuttu spjalli við Stykkishólms-Póstinn á byggingarstað kom fram í máli Ellerts að það væri gaman að fá að taka þátt í framkvæmdinni og að það væri aldrei meira að gera en nú, eftir að hann hætti að vinna! Verið er að klæða veggina úti með litaðri klæðningu þessa dagana og er keppst við að klára það verk sem fyrst í harðri samkeppni við veðrið.