Miðvikudagur , 23. janúar 2019

NSV skorar á stjórnvöld

Stjórn Náttúrustofu Vesturlands fundaði í vikunni og samþykkti bókun þar sem fjallað er um nauðsyn þess að tryggja rekstrargrundvöll stofunnar.

Í tilkynningu segir að Stykkishólmsbær sé eina sveitarfélagið á Vesturlandi sem leggur NSV styrk til reksturs á móti ríkissjóði og hefur haldið sínu hlutfalli í framlögunum í samræmi við þróun verðlags frá árinu 2003.

Í fundargerðinni segir að ríkisframlag hafi dregist saman um 40% að núvirði síðustu ár. Framlag Stykkishólmsbæjar hefur nánast staðið í stað.

Bókun stjórnarinnar er eftirfarandi:

Framlög ríkisins til Náttúrustofu Vesturlands hafa skerst verulega frá því sem var þegar starfsemin var mótuð og skipulögð. Raun lækkun framlaga er um 40% sem gerir starfsemina mjög erfiða miðað við þau nauðsynlegu verkefni sem blasa við vegna rannsókna og vöktunar á viðkvæmum svæðum Vesturlands og Breiðafjarðar.

Stjórn Náttúrustofu Vesturlands harmar lækkun ríkisframlaga til NSV og   leggur áherslu á mikilvægi þess að starfsemi Náttúrustofunnar verði tryggð með auknum framlögum til rekstrarins. Jafnframt hvetur stjórnin til þess að umhverfis og auðlindaráðuneytið beiti sér fyrir því að gerðir verði samningar við Náttúrustofuna um afmörkuð verkefni á hennar starfssviði, sbr. samninga við Náttúrustofur á Vestfjörðum og Norðausturlandi.

Stjórnin skorar á ráðherra umhverfis og auðlindamála, ráðherra fjármála og þingmenn Norðvesturkjördæmis að taka höndum saman um að tryggja fjárhagslegan grundvöll þess mikilvæga starfs sem Náttúrustofa Vesturlands þarf að sinna.