Ný fimleikadýna í íþróttahúsið

Á dögunum tók fimleikadeild Snæfells í notkun forláta loftdýnu í íþróttahúsinu fyrir fimleikaiðkendur. Lionsklúbburinn Harpa styrkti kaupin um 150.000 kr. Það ríkti mikil gleði þegar dýnan var tekin í notkun s.l. mánudag á æfingu hjá fimleikadeildinni. Loftdýna leysir af hólmi gamlar dýnur sem margir muna eftir úr íþróttatímum en hún gerir það að verkum að minni líkur eru á meiðslum við æfingar á gólfi.

Fimleikadeild Snæfells færir Lionsklúbbnum Hörpu kærar þakkir fyrir höfðinglega gjöf. Fimleikadeildin og frjálsíþróttadeild Snæfells voru endurvaktar síðasta haust. Fimleikadeildin hafði verið í hlé í nokkur ár en frjálsu íþróttirnar í eitt ár. Eins og sagt hefur frá á síðum Stykkishólms-Póstsins þá hafa báðar deildir boðið upp á æfingar frá síðasta hausti og ásókn barna á æfingarnar farið fram úr björtustu vonum. Það er hinsvegar einn ljóður á og það er staðan á áhaldaeign hússins. Tæki eru komin til ára sinna eða ekki til. Snæfell sótti um styrk til áhaldakaupa til Stykkishólmsbæjar sem tók jákvætt í erindið og samþykkti að keypt yrðu áhöld í húsið fyrir 500.000 kr. sem myndu nýtast báðum deildum auk íþróttakennslu grunnskólans. Fulltrúar aðalstjórnar Snæfells, fimleika- og frjálsíþróttaráð, þjálfarar og kennarar ásamt forstöðumanni íþróttahússins settust því saman nú í vikunni og fóru yfir í sameiningu hvaða áhöld myndu nýtast öllum sem best og komu á framfæri við bæjarstjórn.

am/frettir@snaefellingar.is