Ný tónlistarskólabygging í tætarann!

Ragnar M. Ragnarsson

Á fundi bæjarstjórnar sem haldinn var þann 27.mars sl. var á dagskrá erindi um styrktarsamning að upphæð 3.000.000 kr. fyrir afnot af kirkjunni fyrir grunn- og tónlistarskólann. Nú þegar er í gildi tímabundinn samningur við kirkjuna sem var gerður 2015 og var hann til fjögurra ára og því engin ástæða til þess að gera nýjan samning fyrr en eldri samningurinn rynni út, og þá hægt að framlengja hann að eftir þörfum. Samningurinn sem lagður var fyrir bæjarstjórn var undirritaður þann 20.mars sl. og lagður fyrir bæjarráð 22.mars. Samningurinn hafði s.s ekki fengið neina umfjöllun í bæjarráði áður en hann var undirritaður og samþykktur. Það sem er sérstakt við þennan samning er að hann er ótímabundinn og ekki með neinum uppsagnarákvæðum. Ekki voru settir neinir fyrirvarar í hann um samþykki bæjarstjórnar. Við í L-listanum máttum til með að gera alvarlega athugasemd við þennan samning, hvernig hann væri uppsettur sérstaklega í ljósi helsta kosningaloforðs H-listans.
H-listinn lofaði kjósendum sínum að byggður yrði nýr tónlistarskóli á kjörtímabilinu. Stór U-beygja var tekin í þeim efnum, án nokkurar umfjöllunar í bæjarstjórn, og bókasafn byggt í staðinn eins og allir Hólmarar þekkja. Allt kjörtímabilið hefur H-listinn talað um að það væri tímaspursmál hvenær yrði farið í byggingu tónlistarskólans, enda fjárhagsstaða bæjarins með eindæmum góð, að þeirra sögn. Hins vegar varð algjör viðsnúningur í þeim efnum á síðasta bæjarstjórnarfundi.

Þegar ég benti bæjarfulltrúum H-listans á að rétt væri að hafa svona samning tímabundinn þar sem að aðeins væri tímaspursmál hvenær farið yrði í byggingu nýs tónlistaskóla. Með nýjum tónlistarskóla þá þyrfti bærinn ekki að leigja lengur aðstöðu fyrir grunn-og tónlistarskólann þar sem að það væri gert væri ráð fyrir nýjum sal í nýja tónlistarskólanum sem var teiknaður 2009. Bæjarstjórinn var fljótur til svara og sagði að það væri algjörlega galið að bærinn ætti að fara í byggingu á „tónlistarhöll“ eins og hann orðaði það. Spurði ég þá hvort að hvort að það ætti að setja 70 milljóna teikningapakkann af nýja tónlistarskólanum í tætarann. Sagði bæjarstjórinn að L-listinn hafi sett hann í tætarann árið 2010. Lárus Ástmar sá fulla ástæðu til þess að benda bæjarstjóranum á þá augljósu staðreynd að skuldarhlutfall bæjarins hafi verið komið á þessum tíma í 190% og hann ásamt fleirum hafi tekið fá ákvörðun að best væri að setja málið á frest, og að þau væru stolt að þeirra ákvörðun því hún, ásamt stefnu L-listans árin 2010-2014, hafi gjörbreytt skuldarstöðu Stykkishólmsbæjar til hins betra.

En það breytir ekki þeim fréttum sem bæjarstjórinn færði okkur bæjarfulltrúum L-listans, ásamt gesti sem sat í bæjarstjórnarsalnum, að H-listinn ætlaði sér ekki að fara í byggingu tónlistarskólans og að teikninga-og útboðsgögnin sem unnin voru árið 2009 væru á leið í tætarann. Þetta segir manni það að aldrei hafi verið nein meining á bakvið stærsta kosningaloforð H-listans og að kjósendur listans hafi verið hafðir að háði fyrir kosningarnar 2014.

Ragnar M. Ragnarsson