Nýir eigendur að Hvítahúsinu

Hvítahúsið í Krossavík hefur fengið nýja eigendur, það eru þau hjónin Elva Hreiðarsdóttir og Halldór Eyjólfsson sem keyptu húsið. Ætla þau að opna starfsemi sína í Hvítahúsi formlega sjómannadagshelgina næstkomandi og eru þau með margt spennandi á prjónunum varðandi húsið. Elva er fædd og uppalin í Ólafsvík hún er dóttir hjónanna Svölu S. Thomsen og Hreiðars Skarphéðinssonar.

Þau Elva og Halldór eru búsett í Reykjavík þar starfar hún sem myndlistarmaður og kennari. Halldór eiginmaður hennar starfar sem grafískur hönnuður og rekur auglýsingastofu.
Hvítahús sem áður var íshús og nánast útveggirnir einir var endurbyggt af hjónunum Steingerði Jóhannsdóttur og Árna Emanúelssyni en þau keyptu það árið 2010 og hófu uppbyggingu á því. Byggðu þau þar upp listamannasetur þar sem listamenn gátu dvalið og unnið í lengri eða skemmri tíma. Þar hafa einnig verið haldnar sýningar og alls kyns uppákomur. Hafa listamenn alls staðar að úr heiminum dvalið þar og stundað ýmsa liststarfssemi. Að sögn Elvu kynntist hún Hvítahúsi og þeim hjónum þegar hún kom og dvaldi þar í stuttan tíma ásamt Soffíu Sæmundsdóttur myndlistarkonu en þær unnu þá að sameiginlegu verkefni. Átti Elva eftir að koma aftur og aftur bæði til þess að vinna sjálf að sinni myndlist en einnig til að halda námskeið. Fannst henni engu líkt að vinna þarna að list sinni. Fjarri öllum skarkala hversdagsins í þessarri ómótstæðilegu náttúruparadís og “komin heim” á vissan hátt eins og hún orðar það.

Munu þau hjón Elva og Halldór reka húsið áfram líkt því sem verið hefur en auka starfsemina lítillega. Í júní og júlí ætla þau að gera tilraun með að reka lítið listagallerí samhliða því að Elva ætlar að vinna að sinni myndlist á staðnum. Er ætlunin að hafa opið almenningi frá klukkan 13:00 til 17:00 daglega. Einnig er stefnt að því að öflugt námskeiðahald fyrir listamenn fari af stað. Mun Elva sjálf kenna flest námskeiðin til að byrja með, ásamt Soffíu Sæmundsdóttur en í framtíðinni er ætlunin að fá fleiri listamenn til samstarfs með listasmiðjur og námskeið af ýmsu tagi. Aðspurð hlakkar þeim hjónum gríðarlega til að takast á við þetta verkefni en það hefur lengi verið draumur Elvu að setja svona rekstur á laggirnar það er vinnustofu og námskeiðahald. Þar segist hún geta unnið sameiginlega að því sem hún hefur lært og hefur mesta reynslu í.

Elva er menntaður myndlistarkennari og hefur starfað við það í þrjátíu ár. Er hún full tilhlökkunar að geta kennt börnum og ungmennum myndlist í Hvítahúsi. Er það ekki síst vegna þess að þegar hún var að alast upp voru fá tækifæri til þess að læra myndlist hér á svæðinu. Langar hana að gefa börnum og unglingum með brennandi áhuga á listsköpun tækifæri til þess að efla sig á því sviði í sinni gömlu heimabyggð. Þó svo hún viti að möguleikarnir séu fleiri í dag. Hlakkar hún mikið til að koma til baka reynslunni ríkari og miðla til samfélagsins. Elva vildi einnig koma á framfæri að í júlí verða námskeið í teikningu fyrir fullorðna sem hafa alltaf langað til að læra að teikna en hafa ekki grunninn. Verður þetta notalegt námskeið og hefur fólk náð miklum árangri á þeim. Nánari upplýsingar má nálgast hjá elvahre@vortex.is og á Hvítahús og ElvaArt á fésbókinni. Það verður gaman að fylgjast með áframhaldandi uppbyggingu Hvítahús og þeirri starfsemi sem þar verður. Ekki skemmir fyrir að nýjir eigendur eiga góð tengsl við samfélagið og alltaf gaman þegar þeir sem flutt hafa burt snúa aftur.