Miðvikudagur , 23. janúar 2019

Nýr framkvæmdastjóri Víkings/Reynis

Þorsteinn Haukur Harðarson

Fyrir skömmu var ákveðið að auglýsa starf framkvæmdastjóra umf. Víkings/Reynis, í auglýsing­unni kom fram að framkvæmda­stjóri verði yfir mfl. karla og kvenna hjá Víkingi og einnig barna­ og unglingastarfi Víkings/ Reynis. Í byrjun mánaðar kom svo í ljós að búið er að ráða fram­kvæmdastjóra, ritstjóri Jökuls hafði samband við þann sem ráðinn var og bað hann um að segja stuttlega frá sér og sínum störfum.

„Þorsteinn Haukur Harðarson heiti ég og er tveggja barna fjölskyldumaður úr Garða­bænum. Ég hef starfað í fjölmiðlum nánast óslitið frá árinu 2008 og hefur það lengst af verið á sviði íþrótta þó ég hafi líka verið á Séð og Heyrt í hálft annað ár. Nú síðast áður en ég tók við störfum sem framkvæmdastjóri Víkings Ólafsvík starfaði ég hjá fjarskiptafyrirtækinu Vodafone.

Mín fyrstu kynni af Víkingi Ólafsvík voru þegar ég skrifaði kynningarblað um knattspyrnu­ lið félagsins skömmu áður en liðið hóf keppni á sínu fyrsta tímabili í deild þeirra bestu árið 2013. Síðan þá hef ég styrkt bönd mín við sveitafélagið og íþrótta­félagið. Til marks um það má nefna að í dag er ég í sambúð með Snæfellsbæjarmær.

Ég hef mikla ástríðu fyrir íþróttastarfi og er afar þakklátur fyrir tækifærið að fá að halda við og byggja ofan á það góða starf sem nú þegar hefur verið unnið hjá Víkingi Ólafsvík.

Það eru spennandi tímar fram­ undan hjá þessu flotta félagi. Meistaraflokkur karla verður í eldlínunni í Pepsídeildinni í sumar auk þess kvennaliðið mun halda uppi heiðri félagsins í fyrstu deildinni. Unga kynslóðin verður líka í brennidepli og ætla ég að leggja mitt af mörkum til að gera gott yngri flokka starf enn öflugra. Þá verða merk tímamót á næsta ári þegar félagið fagnar 90 ára afmæli sínu. Ég hlakka til að vinna náið með ykkur öllum, og sjá ykkur á vellinum í sumar.

Áfram Víkingur Ólafsvík/Reynir!“

Við bjóðum Þorstein velkom­inn til starfa, óskum honum velfarnaðar í starfi og tökum undir hvatningu hans til félagsins.

Birtist fyrst í Bæjarblaðinu Jökli