Nýr kirkjugluggi

Undanfarnar vikur hafa staðið yfir viðgerðir á kórglugga Stykkishólmskirkju. Glugginn sem fyrir var lak mikið og þegar farið var í þakviðgerðir á kirkjunni í fyrra kom í ljós að skipta þyrfti um glugga. Nýr gluggi úr áli er kominn í en eftir er að koma glerlistaverki sem myndar krossinn í glugganum fyrir. Stillansar sem hafa staðið í kirkjunni á meðan vinna við gluggann stóð yfir hafa verið fjarlægðir og messað var í kirkjunni s.l. sunnudag. Svo óheppilega vildi til að þegar verið var að taka niður stillansann að hann féll niður. Þrír menn voru við vinnu í stillansanum en betur fór en á horfðist því einungis einn varð fyrir minniháttar meiðslum. Einhverjar skemmdir urðu á gólfefni við fallið en óljóst hversu mikið. Fer nú að hilla undir lokin á þakviðgerðum á Stykkishólmskirkju og starfsemin í kirkjunni fer að komast í samt horf.

am/frettir@snaefellingar.is